Íþróttafélagið Vestri er nú orðið fjögurra ára en það var stofnað 16. janúar 2016. Innan félagsins eru fimm deildir: Blak-, knattspyrnu-, körfuknattleik-, sund- og hjólreiðadeild. Starfið er blómlegt og vel hefur gengið að þjappa fólki saman á bak við nýtt félag, merki og búning. Félagsmenn eru bjartsýnir og trúa því að Vestri eigi framtíðina fyrir sér.
Aðalstjórn Vestra safnar nú liði og vill gera almenningi kleift að gerast félagsmenn í Vestra. Allir iðkendur innan félagsins eru sjálfkrafa félagsmenn en aðrir sem vilja leggja félaginu lið geta gerst félagsmenn gegn vægu árgjaldi (2000 krónur). Munu félagsgjöldin nýtast til að standa straum af ýmsum sameiginlegum kostnaði deildanna, s.s. vegna bókhalds og vefsíðu félagsins. Rekstur íþróttafélaga er ávallt þungur og mundi ekki ganga nema með stuðningi fjölmargra fyrirtækja og einstaklinga. Hefur Vestri átt því lán að fagna að eiga öfluga bakhjarla og með slíka velvild og stuðning í fararteskinu eru félaginu allir vegir færir.
Það er einfalt að gerast félagi í Vestra. Á forsíðu Vestri.is er hnappur til hægri (í bláa kassanum) þar sem stendur „Gerast félagi í Vestra". Skráningarform opnast þegar smellt er á hnappinn.
Rétt er að geta þess að allir þeir sem einhvern tímann voru skráðir í þau félög sem seinna sameinuðust undir merkjum íþróttafélagsins Vestra urðu sjálfkrafa félagsmenn í Vestra. Þeir fá núna senda kröfu fyrir félagsgjöldum og vonum við að flestir taki vel í að styrkja félagið með þessum hætti. Þeir sem ekki vilja vera félagsmenn geta sent póst á netfangið gjaldkeri@vestri.is og óskað eftir því að vera afskráðir. Hægt er að fela kröfuna í heimabankanum og hún fellur niður í nóvember en viðkomandi er eftir sem áður skráður í félagið nema hann afskrái sig eins og áður segir.
Með Vestrakveðju,
Guðfinna Hreiðarsdóttir formaður Vestra
Deila