Fréttir

Aðalfundur Blakfélagsins Skells

Blak | 13.02.2011

Þriðjudaginn 8 febrúar sl. var aðalfundur Blakfélagsins Skells haldinn í fundarsal Íþróttahússins á Torfnesi á annari hæð.

Dagskrá fundarins var hefðbundin aðalfundarstörf.  Að þessu sinni urðu breytingar á stjórn félagsins, þar sem Sigurður Hreinsson gaf ekki kost á sér áfram sem formaður, auk þess sem Ásdís Birna Pálsdóttir óskaði eftir að losna úr stjórn.  Nýr formaður var kjörinn Harpa Grímsdóttir en Sigurður heldur áfram í stjórn sem meðstjórnandi.  Skoðunarmenn reikninga eru áfram þeir sömu en nýjir aðilar komu inn í varastjórn og í barna- og unglingaráð.

Vill greinarritari nota þetta tækifæri til að þakka þeim aðilum sem viku úr stjórn og barna- og unglingaráði , fyrir samstarfið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins, á liðnum árum.
Á fundinum lagði stjórn félagsins fram stefnu félagsins í vímuvörnum.  Forsaga þess máls er að á formannafundi HSV árið 2009 var samþykkt að öll aðildafélög HSV tækju upp stefnu í vímuvörnum og gætu þannig betur sinnt því mikilvæga hlutverki sínu.  Forvarnarstefna félagsins verður innan skamms aðgengileg hér á vef félagsins.
Í skýrslum formanns og gjaldkera fyrir síðasta ár kom fram, að fjárhagsstaða félagsins sé allgóð, og að rekstrarniðurstaða ársins hafi verið jákvæð.  Skýrsla formanns er svo í heild sinni hér fyrir neðan.

Jón Páll Hreinsson formaður HSV stýrði aðalfundinum af röggsemi og festu, og eru honum hér færðar bestu þakkir fyrir. 


Skýrsla formanns:
 

Góðir félagar.

Í félagsstarfi sem þessu er trúlega varla hægt að viðhafa vitlausari ummæli en þau, að síðasta ár verði seint toppað.  Engu að síður má vel fullyrða að síðasta ár hafi verið alveg hreint frábært og sérstaklega ánægjulegt að sjá hvað blakkrakkarnir okkar voru að standa sig vel.

 

Iðkendur.

Segja má sem svo að starfsemi félagsins sé að vera komin í nokkuð fastar skorður.  Yngri flokkarnir æfa  með sama sniði núna og síðasta vetur.  Félagið heldur úti æfingum í krakkablaki í tveimur bæjarkjörnum Ísafjarðarbæjar, á Suðureyri, og í báðum íþróttahúsunum á Ísafirði.  Æfingarnar eru ætlaðar krökkum á aldrinum 6 til 14 ára og teljast 32 einstaklingar iðkendur í krakkablaki.

Iðkendafjöldi í fullorðinsblaki hefur verið nokkuð svipaður síðustu tvö ár, en frekar hefur borið á fækkun hjá körlunum.  Kvennaliðið nýtur hinsvegar þess að kennsla á háskólastigi er hafin á Ísafirði og hafa þær fengið liðstyrk frá fjarlægum löndum vegna þess.  Í vetur hafa nálægt 30 manns mætt á æfingar og ætlunin er að mæta með karla og kvennalið á næsta öldungamót sem verður haldið núna í vor í Vestmanneyjum.

 

Keppnisferðir

Síðasta vetur tóku krakkarnir okkar í fyrsta skipti þátt í Íslandsmótinu í krakkablaki.  Á fyrra mótið sem var um haustið, fóru 3 lið og á það síðara sem fram fór um miðjann apríl og haldið var í Kópavogi, fóru 4 lið.  Eitt lið keppti í 4. flokki og hin í þeim fimmta.  Árangurinn var vægast sagt ótrúlegur.  Einn Íslandsmeistaratitill, annað sæti hjá öðru liði og svo var hópurinn valinn sá prúðasti á Kópavogsmótinu.

Í haust var svo aftur farið á Íslandsmót, þegar fyrra mótið var haldið á Akureyri í byrjun nóvember.  Kepptu þar tvö lið í 4. flokki og 4 lið í 5. flokki.  Eins og í fyrri ferðum stóðu krakkarnir sig með sóma, öll liðin náðu að vinna einhverja leiki og er staða tveggja þessara liða sérstaklega vænleg á Íslandsmótinu.

Á öldingamótinu 2010, sem haldið var í Mosfellsbæ, spiluðu eitt kvennalið og eitt karlalið undir merkjum Skells.  Ekki verður árangur mótsins mældur í verðlaunapeningum, en markmið félagsins náðust, að halda báðum liðum uppi í þeim deildum sem þau unnu sig bæði uppí árið áður.  Margir bráðskemmtilegir háspennuleikir voru spilaðir og ljóst að í sumum tilfellum hafa skapast ný markmið fyrir framtíðina.

Þessu til viðbótar fóru karla- og kvennalið á Kjörísmót Hamars sem er hraðmót og var haldið í lok mars.  Þar nældi kvennaliðið í annað sætið í sinni deild og karlaliðið í þriðja sæti.

Þá má þess einnig geta að þrjú lið undir merkjum Skells, kepptu í þeirri umferð Íslandsmótsins í Strandblaki sem fram fór á Þingeyri, síðasta sumar.  Var það í annað skipti sem keppt er í nafni félagsins í þeirri útfærslu íþróttarinnar og var árangurinn góður sé tekið mið af því.

 

Keppnir á heimaslóðum

Hér á heimaslóðum, höfum við líka verið að sýna okkur og sjá aðra blakara.  Samæfing hjá krökkunum og páskablakmót Stefnis í mars.  Æfingamót með Héraðssambandinu Hrafnaflóka í október.  Hurðaskellur, jólablakmót fyrir alla aldurshópa í desember.  Það sem stendur þó uppúr er þriðjudeildarmótið sem við héldum í lok október.

Kvennalið Skells hefur verið þátttakandi á Íslandsmótinu í 3. deild í blaki í vetur og er þetta fjórði veturinn sem það er.  Árangurinn síðasta vetur var nokkuð góður og var liðið um miðja deild eftir mótið.

Byrjunin á þessu keppnistímabili gefur væntingar um enn betri útkomu, en liðið rúllaði upp fyrsta mótinu, án þess að tapa lotu, þegar 3. deildarmótið var haldið hér á Ísafirði dagana 30-31. okt.

 

Innviðir og félagsstarf

Segja má að flestir innviðir félagsins verði traustari með ári hverju.  Undanfarin ár hefur félagið sent einstaklinga á námskeið til að treysta og efla þekkingu og getu félagsmanna.  Átta félagsmenn hafa nú leyfi til að dæma í 3. deild og var það fullnýtt á þriðjudeildarmótinu hjá okkur síðasta haust.

Á síðasta aðalfundi voru samþykkt ný lög fyrir félagið og starfar nú yngriflokkaráð og sér það um allan rekstur í kringum alla yngri flokkana. 

Í haust réðum við nýjan aðalþjálfara fyrir félagið, háskólanemann Jamie Landry, frá Bandaríkjunum.  Óhætt er að segja að hún hafi staðið sína vakt með sóma, að öllum öðrum ólöstuðum.

Fjárhagur félagsins er ágætur og nokkuð stöðugur og var velta félagsins svipuð og árið á undan.  Fjáraflanir eru í aðalatriðum þær sömu og undanfarin ár; kvennahlapið, fjöruhreinsun, kökubasar, styrkir í gegnum HSV og ÍSÍ.  Þar að auki fengum við styrk frá menntamálaráðuneytinu til uppbyggingar á blakíþróttinni.

 

Hugleiðingar formanns

Þar sem það er ætlan mín að víkja sem formaður á þessum aðalfundi ætla ég að leyfa mér að kasta fram hér nokkrum hugleiðingum sem skotið hafa upp kollinum á liðnum misserum:

Mér finnst það sérkennilegt, að í ekki stærra samfélagi en þessu sem við lifum í, séu komin tvö atvinnumannafélög í íþróttum.  Það er svosem jákvætt að vera stórhuga, en þegar komin eru jafn fjárfrek félög og þau sem ég er að tala um, þá bitnar það klárlega á öðru íþróttastarfi.  Það er mín skoðun að þessum peningum sé ílla varið.  Eðlilegra væri að efla starf í barna- og unglingaflokkum og best væri ef þessu fé væri þannig varið að ungmennum gæfist kostur á að æfa hvaða íþrótt sem hugurinn girnist, fyrir litla eða enga þóknun. 

Ég vil engan hræða, en mín tilfinning er sú að næstu 2 til 4 ár, verði dálítil baráttuár fyrir okkur blakara.  En þá er líka mikilvægt að hætta ekki bara og gefast upp.  Við þurfum að passa vel upp á þennan frábæra hóp og reyna að gæta þess að dreifa ábyrgð og verkefnum.  Ofhleðsla á fáa einstaklinga er líklegt til að fólk brenni of fljótt upp.

Markmið félagsins er að halda uppi æfingum í blaki í öllum aldursflokkum, okkur vantar klárlega fleiri iðkendur í elstu flokkum unglinga og við getum alveg fjölgað fullorðnum iðkendum.  Í þeim efnum þreytist ég ekki á því að halda fram þeirri skoðun minni, að strandblakvöllur á starfsvæði Skells, myndi stórbæta þá möguleika fyrir okkur.

 

Ég vil að lokum þakka öllum fyrir samstarfið sem formaður félagsins undanfarin 3 ár.

Síðasta starfsár var ánægjulegt í alla staði, en ég vona að það starfsár sem hafið er, verði jafnvel enn betra.

 

Sigurður Hreinsson

Deila