Meistaraflokkur karla heldur í æfingabúðir til Patreksfjarðar í dag, föstudag og æfir þar alla helgina.
Hópurinn telur um 20 manns, þ.e. 14 manna æfingahópur ásamt þjálfara og nokkrum stjórnarmönnum félagsins.
Æfingabúðirnar marka upphaf leiktímabils KFÍ í vetur en miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum undir stjórn Péturs Más Sigurðssonar, nýs yfirþjálfara KFÍ. Þrír erlendir leikmenn spila með liðinu í vetur, Bandaríkjamennirnir Craig Schoen og Chris Miller-Williams, sem er nýr hjá liðinu, og Edin Suljic. Craig og Chris komu til landsins í gær en Edin er ekki væntanlegur fyrr en í byrjun október þar sem hann er að ná sér eftir handleggsbrot.
Aðstaða til æfinga er til mikillar fyrirmyndar á Patreksfirði en þar er nýtt íþróttahús sambyggt við útisundlaug og líkamsræktaraðstöðu. Er það von stjórnar KFÍ að slíkar æfingabúðir í upphafi leiktímabils geti orðið að föstum lið í starfsemi félagsins, jafnt í karla- sem kvennaflokkum. Búðunum er einnig ætlað að marka upphaf formlegs samstarfs KFÍ og íþróttafélagsins Harðar Patreksfirði, en löng hefð er fyrir körfuknattleik á Patreksfirði.
KFÍ mun standa fyrir æfingum yngri flokka Harðar á meðan á búðunum stendur auk þess sem félögin eru með í undirbúningi svokallað Vestfjarðamót í körfuknattleik yngri flokka sem til stendur að halda á Patreksfirði síðar í haust.
Vetrarstarf KFÍ er komið í fullan gang en í gær hófust æfingar allra yngri flokka og má finna æfingatöflu félagsins á kfi.is.
Deila