Fréttir

Stelpurnar í toppbaráttunni um helgina

Körfubolti | 20.03.2015
Labrenthia Murdock og stelpurnar sem hún þjálfar í meistaraflokki KFÍ eiga möguleika á að spila til úrslita í deildinni. Ljósmynd: Karfan.is.
Labrenthia Murdock og stelpurnar sem hún þjálfar í meistaraflokki KFÍ eiga möguleika á að spila til úrslita í deildinni. Ljósmynd: Karfan.is.

Kvennalið KFÍ hefur staðið sig vel í vetur og eru stelpurnar í báráttunni um að vera annað tveggja liða deildarinnar sem spilar um laust sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili. Úrslitin geta ráðist nú um helgina en þá mæta stelpurnar bæði toppliði Njarðvíkur, sem ekki hefur tapað leik á tímabilinu, og liði Stjörnunnar sem er í öðru til þriðja sæti deildarinnar ásamt KFÍ.

 

Leikurinn við Njarðvík fer fram í Njarðvík á föstudag kl. 19:15  en þar verður við ramman reip að draga enda Njarðvíkurliðið gríðarlega sterkt. Leikurinn við Stjörnuna fer fram í Garðabæ á sunnudag kl. 14:30. Vinni KFÍ báða leikina er ljóst að þær spila um laust sæti í úrvalsdeild við Njarðvík. Leikurinn gegn Stjörnunni er afar mikilvægur enda liðin jöfn að stigum og því gætu innbyrðist viðureignir skorið úr um hvort liðið mætir Njarðvík í úrslitum.

 

Helgin er því ansi spennandi í kvennaboltanum og afar ánægjulegt að sjá að stelpurnar eiga möguleika á sæti í deild þeirra bestu.

 

Við minnum einnig á lokaleik karlaliðs KFÍ sem fram fer í kvöld kl. 19:15 á Torfnesi.

Deila