Fréttir

Jóhann Króknes Torfason heiðraður af ÍSÍ og KSÍ

Vestri | 25.02.2023
Jóhann Króknes Torfason tekur við heiðurskrossi ÍSÍ af Hafsteini Pálssyni, 2. varaforseta ÍSÍ.
Jóhann Króknes Torfason tekur við heiðurskrossi ÍSÍ af Hafsteini Pálssyni, 2. varaforseta ÍSÍ.
Laugardaginn 25. febrúar fór 77. ársþing Knattspyrnusambands Íslands fram í íþróttahúsinu á Torfnesi, Ísafirði. Í upphafi þingsins var Jóhann Króknes Torfason sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ af Hafsteini Pálssyni, 2. varaforseta ÍSÍ. Jóhann hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu íslenskrar knattspyrnu auk annarra starfa í þágu íþróttahreyfingarinnar þar sem hann hefur m.a. átti sæti í vinnuhópi um Ferðasjóð íþróttafélaga sem ÍSÍ hefur umsjón með fyrir hönd ríkisins.
 
Í hófi sem haldið var að þingi loknu, sæmdi Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður stjórnar KSÍ, Jóhann Króknes heiðurskrossi KSÍ sem er æðsta heiðursmerki KSÍ og veitist aðeins undir alveg sérstökum kringumstæðum þeim sem unnið hafa knattspyrnuíþróttinni ómetanlegt gagn.
 
Vestri óskar Jóhanni Króknes innilega til hamingju með viðurkenningar ÍSÍ og KSÍ og færir honum jafnframt þakkir fyrir ómetanlegt framlag til uppbyggingar íþróttastarfs á norðanverðum Vestfjörðum.
Deila