Fréttir - Knattspyrna

... og svo fór allt í gang aftur!

Knattspyrna | 05.01.2009 Þá er starfið hafið á ný og hefjast æfingar í dag eftir æfingatöflu. Ættu þá margir að kætast eftir aðgerðaleysi hátíðanna og örugglega verður gott að spretta úr spori á eftir boltanum. Framundan eru Futsal-mót hjá elstu flokkunum en þau mót fara fram á höfuðborgarsvæðinu en tímasetning er ekki komin frá KSÍ. Þá eru flokkar að fara til Akureyrar á 11 manna mót sem þar eru haldin í janúar og febrúar. Stjórn mun funda á næstu dögum og ákveða þátttöku á mótum ársins í samráði við þjálfara. Gangi ykkur vel! Nánar

Gleðileg jól!

Knattspyrna | 19.12.2008 Þá er jólafríið komið og væntanlega einhverjir hvíldinni fegnir (en alveg örugglega ekki allir!). Æfingar munu hefjast skv. æfingatöflu mánudaginn 5. janúar. Séu einhverjir ekki sáttir við fríið skal auðvitað benda þeim á að fótbolta er hægt að iðka hvar sem er, hvenær sem er og næstum hvernig sem er. Smellið boltanum bara á tærnar og byrjið leikinn en verið bara ekki í stofunni, það er ekki vinsælt.

Stjórn Boltafélags Ísafjarðar óskar iðkendum sínum, foreldrum og velunnurum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökk fyrir allt skemmtilega starfið á líðandi ári. Sjáumst fersk og endurnærð á næsta ári og af enn meiri krafti. Nánar

Dagskráin að mótinu komin á netið

Knattspyrna | 04.12.2008 Þá er uppröðunin komin á hreint. Við ákváðum að breyta aðeins fyrirkomulaginu á mótinu enda ljóst að Hólmvíkingar komast ekki þessa helgi og fækkar þar með leikjum nokkuð. Svo eru krakkarnir okkar út um allar trissur enda nálgast jól og erum við því með færri lið en venjulega. Með því að hagræða aðeins og fækka leikjum í völdum flokkum getum við því klárað mótið á laugardeginum. Flokkar eiga að mæta sem hér segir (ef þjálfarinn sagði annað, farið þið eftir því sem hann/hún sagði):

8. flokkur mætir kl. 8:30, hefur leik kl. 9:00
7. flokkur drengja og stúlkna og 6. flokkur stúlkna mætir kl. 8:50, hefur leik kl. 9:20
4. flokkur stúlkna mætir kl. 10:00, hefur leik kl. 10:30
4. flokkur drengja mætir kl. 10:30, hefur leik kl. 11:00
6. flokkur drengja og 5. flokkur stúlkna mætir kl. 12:30, hefur leik kl. 13:00
5. flokkur drengja mætir kl. 14:15, hefur leik kl. 14:45
3. flokkur karla mætir kl. 16:00, hefur leik kl. 16:40.

Móti lokið kl. 17:00

Nákvæm leikjatafla er komin inn undir liðnum "Gögn fyrir foreldra" á forsíðunni. Nánar

Okkar menn kallaðir á U-landsliðsæfingar

Knattspyrna | 03.12.2008 Eins og lýðum er ljóst hefur Emil Pálsson, leikmaður BÍ88, verið að æfa með 30 manna úrtaki með U-17 ára landsliði Íslands undanfarið. Hann var kallaður til æfinga um síðustu helgi og hefur nú verið hóað í hann á ný. Hann mun því æfa með liðinu nú um helgina 6. og 7. desember. Það er því ljóst að Emil kemur sterklega til greina í leikhóp liðsins.

En hann er ekki að fara einn í þetta skiptið því nú var Matthías Króknes Jóhannsson, leikmaður 3. flokks BÍ88, kallaður til æfinga með 60 manna úrtakshópi fyrir U-16 landsliðs Íslands. Það ætti ekki að koma neinum á óvart, Matthías er sterkur leikmaður og var gríðarlega gaman að horfa á spretti hans á vellinum síðasta sumar, þá sem leikmanns 4. flokks BÍ88. Hann sat síðan á bekknum hjá 2. flokki og kom við sögu í einhverjum leikjum. Þá kynntist hann aðeins bekkjarsetunni hjá meistaraflokki síðasta sumar en kom ekki við sögu í leikjum þeirra.

Við óskum Emil og Matthíasi til hamingju með árangurinn enda eru þeir valdir úr hópi nokkur hundruð stráka á landsvísu. Nánar

Stelputímar

Knattspyrna | 01.12.2008 Boltafélag ísafjarðar, BÍ88, ætlar að bjóða öllum stelpum í 1.-6. bekk á æfingar einu sinni í viku í vetur, þeim að kostnaðarlausu! Stelpur í 5. og 6. bekk mega mæta á æfingar á mánudögum kl. 15:00 í íþróttahúsinu við Torfnes en stelpur í 1., 2., 3. og 4. bekk mega mæta á föstudögum kl. 14:00 í íþróttahúsinu við Austurveg. Ekki er skylda að mæta á aðrar æfingar félagsins og munið-þetta kostar ekki neitt!
Þjálfari er Birna Jónasdóttir og veitir hún allar upplýsingar í síma 869 4209 og birnajo@hotmail.com.
Nánar

Haustmót BÍ88 2008

Knattspyrna | 25.11.2008 Haustmótið árlega verður haldið í íþróttahúsinu við Torfnes helgina 6.-7. desember nk. Munu 3.-8. flokkar drengja og stúlkna leika listir sínar með knöttinn og má búast við margmenni enda von á félögum okkar frá Bolungarvík, Flateyri, Suðureyri, Súðavík og Þingeyri. Reiknað er með að mótið hefjist kl. 9 báða dagana og að það standi til kl. 17 a.m.k. á laugardeginum og til kl. 15 á sunnudeginum. Veitingar verða seldar vægu verði á staðnum og auðvitað fá allir einhver lítil verðlaun fyrir þátttökuna og dugnaðinn á æfingum undanfarnar vikur. Nánar

KSÍ II þjálfaranámskeið á Ísafirði

Knattspyrna | 24.11.2008 Um næstu helgi (28.-30. nóvember), verður haldið þjálfaranámskeið hér á Ísafirði. Mun það hefjast upp úr hádegi á föstudegi og ljúka um kl. 14 á sunnudeginum. Mikið verður um verklegar æfingar en einnig verður bóklegur hluti. Leiðbeinandi er Þorlákur Árnason, yfirþjálfari yngri flokka Stjörnunnar í Garðabæ en hann hélt einmitt námskeið hér fyrir réttu ári síðan við góðar undirtektir. Allir sem áhuga hafa eru velkomnir, þeim að kostnaðarlausu. Skráning fer fram hjá formanni BÍ88, Svavari Þór Guðmundssyni í netfanginu svavarg@fsi.is. Nánar

Málþing: Æskan á óvissutímum

Knattspyrna | 24.11.2008 Þriðjudaginn 25. nóvember næstkomandi verður haldið málþing á Ísafirði með yfirskriftina ,,Æskan á óvissutímum." Málþingið verður haldið á 4. hæð stjórnsýsluhússins og hefst kl. 16:30. Allir þeir sem láta sig velferð barna og ungmenna varða eru hvattir til að mæta. Mikilvægt er fyrir okkur að mæta og sýna áhuga svo við verðum heimsótt aftur. Dagskráin er svohljóðandi:

Setning:
Jón Páll Hreinsson, formaður HSV

Ávarp:
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri

Tónlistaratriði

Ísland í efnahagslegu fárviðri:
Svava Jóhanna Haraldsdóttir, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands

Raunveruleiki heimilanna:
Margrét Geirsdóttir, forstöðumaður skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar.

Kaffi

Barnið í kreppunni:
Hulda Sólrún Guðmundsdóttir, sálfræðingur

Mikilvægi æskulýðsstarfs á óvissutímum:
Þórólfur Þórlindsson, forstjóri Lýðheilsustöðvar

Hvernig spegla ég ástandið?:
Jóhann Þorsteinsson, svæðisfulltrúi KFUM og KFUK á Norðurlandi

Fundarstjóri:
Margrét Halldórsdóttir, íþrótta- og tómstundafulltrúi Ísafjarðarbæjar

Málþingið er öllum opið og er aðgangur ókeypis Nánar

Engar æfingar sunnudaginn 16. nóvember

Knattspyrna | 15.11.2008 Vegna körfuboltamóts falla æfingar niður sunnudaginn 16. nóvember. Nánar

Emil Pálsson kominn í 30 manna úrtak U-17 landsliðs KSÍ

Knattspyrna | 11.11.2008 Emil Pálsson leikmaður 3. flokks BÍ88 var á dögunum kallaður til æfinga með 60 manna úrtakshópi U-17 landsliðs KSÍ. Eins og þetta gefur til kynna voru 60 strákar hvaðanæfa að af landinu kvaddir til æfinga þar sem þeir voru vegnir og metnir af þjálfurum liðsins. Frammistaða Emils var slík að hann var kallaður aftur til Reykjavíkur um síðustu helgi og þá var búið að fækka í hópnum niður í 30. Eftir nokkra daga kemur síðan í ljós hverjir munu skipa U-17 landslið Íslands í komandi verkefnum en Emil ætti að vera líklegur til afreka, enda búinn að öðlast mikla reynslu í sumar. Þá spilaði hann alla leiki 2. flokks BÍ/UMFB, þó svo að hann hafi þá verið á yngra ári í 3. flokki! Um leið var hann oft á bekknum hjá meistaraflokki og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik í sumar, þá ekki orðinn 15 ára. Það er því ljóst, og það vita allir sem fylgst hafa með fótboltanum hér fyrir vestan, að Emil er gríðarlega efnilegur og ætti sannarlega heima í U-17 landsliði okkar. Ég tel mig tala fyrir hönd allra félaga BÍ88 og annarra velunnara knattspyrnunnar þegar ég óska Emil til hamingju með þann árangur sem hann hefur náð og vona að hann eigi eftir að ná miklu lengra í náinni framtíð. Nánar