Fréttir

Nýr bakhjarl hjá Vestra

Knattspyrna | 27.11.2019

Meistaraflokkur knattspyrnudeildar Vestra og Premis hafa gert með sér samstarfssamning um að Premis verði einn af stærstu bakhjörlum deildarinnar næstu 3 árin. Premis er tölvufyrirtæki sem sérhæfir sig í upplýsingatækni, hvort sem um er að ræða kerfisrekstur, hýsingu, veflausnir eða almenna tölvuþjónustu. Eigandi Premis er Ísfirðingurinn Kristinn Elvar Arnarsson og handsöluðu hann og Samúel Samúelsson formaður mfl Vestra samninginn í höfuðstöðvum Premis sl. föstudag.

 

„Við erum gríðarlega ánægðir og þakklátir Premis um að ganga í lið með okkur, við erum að leika í fyrsta skipti undir merkjum Vestra í Inkasso-deildinni á komandi sumri. Við verðum að vera með samkeppnishæft lið og umgjörð, og samstarf við Premis hjálpar okkur klárlega í að ná þeim markmiðum. Vonandi verður þetta samstarf farsælt og hjálpar báðum aðilum“ sagði Samúel Samúelsson.


„Við hjá Premis höfum stutt vel við íþróttarstarf í gegnum tíðina, Í september sl. fylgdist ég með Vestra vinna Tindastól á Vestri TV, og tryggja sér sæti í Inkasso-deildinni. Þar sá ég á fólki hvað fótboltinn gefur mikið, og ég hugsaði með mér að ég vildi leggja mitt af mörkum til að hjálpa liði í heimahögunum að halda áfram að dafna. Umgjörðin var frábær og allir voru með bros á vör og hver vill ekki taka þátt í svoleiðis skemmtun, ég hvet bara fleiri Vestfirðinga að hugsa heim og leggja sitt að mörkum við að hjálpa til“ sagði Kristinn Elvar Arnarsson eigandi Premis.

Deila