Fréttir

Sigur gegn Selfossi - Myndband

Knattspyrna | 24.08.2014

Meistaraflokkur karla hjá BÍ/Bolungarvík sigraði Selfoss 2-1 á Torfnesvelli í dag. Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og pressuðu Selfoss hátt á vellinum án þess að skapa sér nein dauðafæri. Vendipunktur í leiknum varð á 26. mínútu þegar Svavari Berg Jóhannssyni í liði Selfoss var vísað af velli fyrir groddalegt brot á Hafsteini Rúnari Helgasyni, fyrirliða BÍ/Bolungarvíkur. Svavar fór með fótinn allt of hátt í baráttu um boltann og lán að Hafsteinn meiddist ekki. 

Á 34. mínútu varð Esteban Bayona í liði heimamanna að fara af velli en hann virtist hafa tognað á læri um miðjan fyrri hálfleik. Esteban hafði verið mjög líflegur í leiknum og við brotthvarf hans dofnaði yfir leiknum. Undir lok fyrri hálfleiks fékk BÍ/Bolungarvík hornspyrnu og Óskar Elías Zoega náði að koma boltanum í netið, 1-0 fyrir heimamenn. 

Geir Kristinsson jafnaði fyrir Selfoss á 66. mínútu og kom markið eftir hornspyrnu. Fór þá um áhorfendur í stúkunni enda væri það afar klaufalegt að taka ekki öll stigin á heimavelli manni fleiri. BÍ/Bol herti róðurinn og sótti stíft næstu mínúturnar og einungis fjórum mínútum eftir mark Selfoss skoraði Agnar Darri Sverrisson fyrir BÍ/Bol eftir að aukaspyrna frá Aaroni Spear fór í varnarvegginn. 

Með sigrinum er BÍ/Bol komið í 8. sæti 1. deildar með 24 stig og fjarlægist fallsætið óðfluga. Í fallsætunum eru Knattspyrnufélag Vesturbæjar í 11. sæti með 18 stig og Tindastóll í 12. sæti með 3 stig og þar með fallinn. Grindavík og Selfoss eru í 9. og 10. sæti með 22 stig. Í síðustu fjórum leikjum hefur BÍ/Bolungarvík náð í 10 stig af 12 mögulegum. 

- smari@bb.is - BB.is

Hér eru svo myndband frá mörkum og spjöldum.

Deila