Helgina 13-15 maí var haldið síðasta blakmót tímabilsins, þegar fram fór Íslandsmót U14 og U16 í Neskaupstað. Vestri mætti að sjálfsögðu á mótið með U16 strákaliðið og að auki tvær stúlkur sem voru lánaðar til U14 KA.
Þetta er dálítill spölur að keyra, en ferðalagið var tekið í tveimur áföngum. Keyrt var frá Ísafirði á fimmtudeginum til Akureyrar og gist þar og á föstudeginum var leiðin kláruð til Norðfjarðar, þar sem fyrstu leikir mótsins hófust seinnipart föstudagsins.
Eitthvað stóð ferðalagið í okkar strákum, þegar þeir fóru í sinn fyrsta leik á móti KA, en sá leikur endaði með sigri KA, 2-1. En þetta voru líka einu tvær hrinurnar sem strákarnir okkar töpuðu á mótinu, alla hina leikina unnu þeir 2-0. Og með þessum frábæra árangri, lönduðu strákarnir Íslandsmeistaratitilinum. Þeir eru því tvöfaldir meistarar þetta tímabil, en þeir unnu Kjörísmeistaratitilinn á bikarmótinu á Akureyri sem fór fram í febrúar. Hina þrjá titlana á mótinu í Neskaupstað unnu heimamenn. Frekari fréttir og myndir af mótinu má finna á FB síðu Þróttar.
Helgina áður (6-8 maí) fór fram yngriflokkamót á Ísafirði.
Þar öttu kappi krakkar í U12 aldursflokki. Eins og stundum hefur sést áður, getur verið lengra til Ísafjarðar en frá, en einungis mættu lið frá þremur félögum til mótsins auk Vestra. Það voru Þróttur frá Neskaupstað, Völsungur á Húsavík og Afturelding í Mosfellsbæ. Engu að síður var mótið bráð skemmtilegt og virkilega gaman að sjá þessa yngstu iðkendur spila og sjá þau verða betri og betri með hverjum leiknum, en alls spiluðu 10 lið á mótinu og allir við alla.
Í drengjaflokki var það lið Völsunga sem stóð uppi sem sigurvegari eftir hreinan úrslitaleik við Vestrapilta, sem höfðu einn Þróttara sér til fulltingis. Í stúlkuflokki var það A-lið Vestra sem hreppti gullið, eftir æsispennandi mót, en lið Þróttar var í öðru sæti og lið Aftureldingar í því þriðja.
Öll dómgæsla og stór hluti af umsjóninni á mótinu var framkvæmd af okkar ágætu U16 strákum, sem leystu það hlutverk af með stakri príði.Við forsvarsmenn blakdeildar Vestra viljum þakka gestaliðunum fyrir komuna en einnig iðkendum okkar og áhangendum fyrir stórkostlegann vetur og hlökkum til að takast á við næsta tímabil.
Deila