Fréttir

Úrvalsdeildarlið Vestra

Blak | 04.02.2023
Úrvalsdeildarlið Vestra 22-23
Úrvalsdeildarlið Vestra 22-23
1 af 4

Þá er farið að síga á seinni hlutann í úrvalsdeildinni í blaki þetta tímabilið, en Vestri er núna með karlaliðið á sínu fjórða tímabili í deild þeirra bestu á Íslandi.

Þegar þessi orð eru sett á blað á Vestri eftir þrjá deildarleiki (af 12), þar af einn heimaleikur sem á að spilast á morgun 5 febrúar.  Liðin í deildinni eru 7 og er spiluð tvöföld umferð, leikur heima og heiman á móti hverju liði.  En í framhaldi af því er spiluð krossumferð, þar sem 3 efstu liðin spila sín á milli og 4 neðstu gera það sama.  Niðurstaðan út úr krossumferðinni ræður því hvaða lið komast svo í úrslitakeppnina.

Staðan í deildinni er vægast sagt mjög spennandi, en eins og stendur er Vestri í 3ja sæti deildarinnar, með jafn mörg stig og KA sem situr í því fjórða.  Fari svo að Vestri haldi sætinu, á liðið einn heimaleik í krossumferðinni og einn útileik.  En ef svo fer að KA taki 3ja sætið, á Vestri tvo heimaleiki á næstunni í krossumferðinni.  Vestri á frekar erfiða andstæðinga eftir í deildinni, en heimaleikurinn á morgun er á móti Aftureldingu sem situr í öðru sæti deildarinnar.  Útileikirnir eru svo á móti áðurnefndu KA liði og svo á móti toppliði Hamars.

Á síðustu helgi var tilkynnt um kjör á liði fyrri hluta tímabilsins í úrvalsdeildunum í blaki.  Að þessu sinni var enginn núverandi leikmaður Vestra valinn í liðin, en hinsvegar urðu tveir fyrrverandi leikmenn okkar fyrir valinu karlamegin, þeir Mateusz Klóska sem spilar með HK og Hafsteinn Már sem skipti yfir í Aftureldingu síðasta haust.

Annars hafa okkar leikmenn verið að gera ágæta hluti í vetur, eins og staða liðsins í deildinni bendir til.  Franco okkar er í hörðum slag um stigahæsta sætið auk þess að vera gríðaröflugur í uppgjöfum.  Þá er Juan þjálfarinn okkar einnig ofarlega í keppninni um besta uppgjafarann, en hann er uppspilari liðsins og er því ekki að skora eins af stigum sjálfur.

Framundan er því mikil spenna í deildinni auk þess sem síðar í dag skýrist hvort Vestri spilar á móti Völsungi eða Blakfélagi Hafnarfjarðar í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins.

Deila