Vestri C - ungmennalið blakdeildar Vestra - gerði góða ferð austur á Neskaupstað um nýliðna helgi, en þá fór fram loka keppnishelgi þriðju deildar karla í blaki.
Keppnisfyrirkomulag í þriðju deild er þannig að spilaðar eru þrjár helgarlotur („túrneringar") sem dreifast yfir veturinn. Í tveimur fyrri lotunum mætast liðin 12 í deildinni innbyrðis, en fyrir loka keppnishelgina er deildinni svo skipt upp, þannig að sex efstu liðin fara í A úrslit um deildarmeistaratitilinn, en sex neðri liðin fara í B úrslit.
Vestrastrákarnir höfðu spilað frábærlega fyrstu tvær helgarnar og sátu í efsta sæti deildarinnar að þeim loknum. Í úrslitakeppninni héldu þeir uppteknum hætti gegn hörku góðum andstæðingum, í leikjum sem stundum voru full jafnir og spennandi fyrir áhorfendur með Vestra hjarta. En drengirnir sýndu mikinn aga og þroska í sínum leik og stóðu þétt saman. Þegar kom að lokaumferðinni höfðu þeir lagt alla andstæðinga sína að velli og mættu öðru taplausu liði, „Afturelding ungir", í hreinum úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn. Þess má geta að mótherjarnir í þeim leik eru þjálfaðir af Vestramanninum Hafsteini Sigurðssyni sem nú stundar nám syðra og spilar með úrvalsdeildarliði Aftureldingar. Lærisveinar Hafsteins mættu grimmir til leiks í fyrstu hrinu, tóku afgerandi forystu og voru komnir í 16-24 áður en Vestrastrákarnir hrukku í gírinn, skoruðu 10 stig í röð og náðu að snúa nánast vonlausri stöðu í sigur eftir upphækkun, 26-24. Í næstu hrinu tóku okkar drengir fljótlega frumkvæðið og tryggðu sér sigur, 25-19. Þar með var deildarmeistaratitillinn í höfn.
Uppistaðan í liði Vestra C eru strákarnir sem urðu bæði Íslands- og bikarmeistarar í sínum aldursflokki, U16, í fyrravetur. Í ár fengu þeir að spreyta sig í þriðju deild karla með þessum frábæra árangri og hafa nú tryggt sér keppnisrétt í annarri deild næsta vetur.
Deila