Ekki þurftu strákarnir í KFÍ að hafa fyrir því að reima á sig skóna til að komast áfram í bikarkeppni KKÍ. Breiðablik er enn eitt félagið sem kemur ekki til leiks og gáfu leikinn fyrirfram en téður leikur átti að vera á Jakanum á morgun kl.16.00.
Þetta er ekki skemmtilegt og eru allir hér heima ekki kátir með svona vinnubrögð. Það er verið að taka þátt til að keppa leiki og taka þátt.
Hér er smá hugleiðing frá formanni okkar Sævari Óskarsyni.
Enn og aftur gerist það, að íþróttafélag mætir ekki til leiks hingað vestur á Ísafjörð í skipulagðri keppni undir hatti KKÍ. Í þetta skipti er það lið Breiðabliks sem hefur gefið leik sinn gegn 11.flokki KFÍ í 16 liða bikarkeppni KKÍ. Ástæður engar gefnar, einungis símtal til yfirþjálfara KFÍ.
Þetta er að verða kunnulegt á okkar slóðum að lið gefi leiki eða mæta hreinlega ekki til leiks. Árið á undan voru það lið ÍR, Keflavík og Ármann sem ekki komu til leiks, það er snúið fyrir okkur að útskýra fyrir iðkendum og foreldrum þeirra hver ástæðan er fyrir þessu.
Við erum að leggja á okkur mikið starf til að halda úti barna og unglingaflokkum, þannig að það er orðið áhyggjuefni að KFÍ sé í þeim sporum að ferðast með iðkendur um langan veg í annann hvern leik, en fá svo ekki leiki endurgoldna hingað.
Er þetta eitthvað sem hreyfingin í heild sinni þarf að skoða, er þetta það sem við viljum sjá þegar lið veljast á móti andstæðingi sem er í óheppilegri fjarlægð. Skilaboðin eru óþægileg sem felast í þessu, hreyfingin vill halda úti mótum sem ná til allra félaga innann KKÍ hvar svo sem þau eru staðsett, og það má alls ekki fara svo að þessi mót séu einungis innann þess svæðis sem hægt er að ferðast til í strætó.
Við vitum að þetta er ekki einungis hér fyrir vestan og ekki bundið körfunni einni. Þetta er vandi sem öll íþróttafélög sem búa óþægilega langt frá höfuðborgarsvæðinu lenda í. Nú er þessi spurning kominn fram á ný hvað valdi þessu, og verða félögin að svara á sinn hátt. Við höfum engin önnur svör en þau að þetta spari peninga, og ef svo er þá er uppi óþægileg staða í barna og unglingastarfi á landsbyggðinni.
KFÍ harmar það að fá ekki alla okkar leiki hingað til þess að hafa tækifæri til að sýna iðkendum, foreldrum, og íbúum hér heima, okkar keppnisfólk í leik og kappleikjum fyrir félagið sitt.
Fh. KFÍ
Sævar Óskarsson, fomaður
Deila