Það var annar bragur á leik KFÍ í kvöld og margt sem taka má frá þessum leik sem túlkast sem jákvætt. Við verðum þó að muna að þriggja stiga skotin bjarga ekki öllu og vorum við ískaldir á Jakanum í fyrri hálfleik, en það skánaði í þeim seinni.
KR komu vel stemdir til leiks með Kristófer Acox í fantaformi og hann ásamt Martin Hemannssyni og Brynjari Birni voru allt í öllu hjá KR, þó að Helgí Már og Gústi hafi ekki verið langt á eftir. Helgi stjórnaði vel á gólfinu og leikurinn flæddi vel. Og stýrðu þeir þessum sigri örugglega í höfn, lokatölur 82-96.
Það voru þó dómararnir sem áttu flesta sprettina og voru ekkert að flauta of lítið. Villur voru ófáar og ekki alveg ljóst hvar þessi svokallaða lína liggur í dag. Það kann ekki góðri lukku að stýra þar sem þetta ruglar alla í ríminu og það sem má í einum leik má alls ekki í þeim næsta og á þetta við leikinn í heild sinni og á öll lið.
Annars voru strákarnir í KFÍ þrælsprækir og áttu fína spretti. Momci var á bekknum lungann úr leiknum í villuvandræðum sem og voru stóru strákarnir allir í villuvandræðum og riðlaði það leiknum töluvert þar sem Helgi, Jón Orri, Gústi og Acox kunna að sækja að körfunni og nýttu sér það.
Það er annar ekki mikið að segja frá. Það sáust flottir taktar báðum megin vallarins og tilþrif hjá Martin og Kristó glöddu viðstadda.
Hjá KFÍ var Momci skástur og setti 22 stig og tók 6 fráköst. Ty spilaði sinn fyrsta leik í kvöld og er því fagnað að fá stóran dreng inn í teig og átti hann fína spretti. hann er þó enn með "fluglappir" hanns etti þó 16 stig og tók 4 fráköst og var með fína nýtingu. BJ var sendur í sturtu fyrir tvær óíþróttamannslega vinnur. Sú fyrri var hárrétt, en sú seinni fékkst á tombólu. Hann kláraði þó leikinn með 18 stig, 3 fráköst og 3 stoðir. Kristján Pétur er að komast í leikform og átti í dag 12 stig. Jón Hrafn var flottur þegar hans naut við, en villurnar fuku á hann og endaði hann á bekknum með 5 slíkar. Hann náði þó að setja 8 stig, taka 6 fráköst og var 100% frá þriggja stiga landinu. Mirko endaði með 6 stig og 9 fráköst.
Næsti leikur KFÍ er úti gegn Njarðvík í Dominos deildinni, og svo er heimaleikur á Jakanum n.k sunnudag 18. nóvember gegn frændum okkar frá Snæfell í Lengjubikarnum
Deila