Fréttir

Enginn meistaraflokkur kvenna í vetur

Körfubolti | 26.08.2013
Það er mikil eftirsjá af stelpunum en koma tímar, koma ráð
Það er mikil eftirsjá af stelpunum en koma tímar, koma ráð

Eftir nokkur frábær ár hjá meistaraflokki kvenna KFÍ, sem keppt hefur í 1. deild með eftirtektarverðum árangri, hefur sú ákvörðun verið tekin af stjórn félagsins að tefla ekki fram meistaraflokki kvenna til keppni í vetur. Margar þeirra stúlkna sem hafa verið burðarás liðsins undanfarin tímabil hafa ýmist lokið skólagöngu hér á Ísafirði eða snúið til starfa á öðrum vettvangi. Stjórn KFÍ færir stúlkunum sem skipað hafa meistaraflokk kvenna undanfarin ár bestu þakkir fyrir öflugt starf og óskar þeim gæfu og góðs gengis í öllu því sem þær taka sér fyrir hendur.

 

Í íþróttafélögum í minni samfélögum á landsbyggðinni getur nýliðun verið afar misjöfn milli ára og er óhætt að fullyrða að aðstöðumunur félaga á höfuðborgarsvæðinu annarsvegar og á landsbyggðinni hinsvegar sé gríðarlegur. Hjá KFÍ er staðan sú að nokkur bið verður nú á því að nægilega stór hópur stúlkna komi upp í meistaraflokk félagsins. KFÍ mun þó hér eftir sem hingað til bjóða upp á körfuknattleiksæfingar fyrir stúlkur og er vetrarstarfið óðum að taka á sig mynd. Unnið er að tímaúthlutun í íþróttahúsum á vegum HSV og munu æfingatöflur liggja fyrir innan nokkurra daga.

 

 

Sævar Óskarsson

Formaður

Deila