Fréttir

Heimaleikur í fyrstu umferð

Körfubolti | 04.10.2018
Yngvi Gunnlaugsson þjálfari og lærisveinar hans eru tilbúnir í slaginn! Hvetjum alla til að mæta á Jakann og styðja strákana.
Yngvi Gunnlaugsson þjálfari og lærisveinar hans eru tilbúnir í slaginn! Hvetjum alla til að mæta á Jakann og styðja strákana.

Biðin er á enda. Fyrsti heimaleikur meistaraflokks karla fer fram á Jakanum föstudaginn 5. október. Grannar okkar úr Stykkishólmi mæta í heimsókn en Vestri og Snæfell mættust einmitt í fyrstu umferð á síðasta tímabili einnig.

Leikurinn hefst að venju kl. 19:15 og hvetjum við Ísfirðinga og nærsveitarfólk til að fjölmenna og styðja við strákana. Á leiknum verður hægt að kaupa ársmiða á alla heimaleiki liðsins á Íslandsmótinu fyrir litlar 10.000 kr. Miðaverð er annars 1.500 kr. en 1.000 kr. fyrir eldri borgara og námsmenn. Frítt á alla leiki liðsins fyrir grunnskólanema. Þá verða grillaðir hamborgarar og gos í boði fyrir leik á litlar 1.000 kr. Bryddað verður upp á fjölskyldutilboði 4 borgarar á 3.000 kr.

Jakinn-TV verður að sjálfsögðu með beina útsendingu frá leiknum fyrir stuðningsfólk liðsins sem ekki er statt á norðanverðum Vestfjörðum.

Þá er rétt að taka fram að drengjaflokkur Vestra spilar einnig sinn fyrsta leik hér heima um helgina. Strákarnir mæta FSu kl. 15:00 á Torfnesi. Strax að þeim leik loknum, eða kl. 17:00, siglir flaggskipið B-lið Vestra svo inn í sinn fyrsta leik á tímabilinu þegar liðið mætir Breiðablik B í 3. deild Íslandsmótsins.

Áfram Vestri!  

Deila