Skömmu fyrir páska var tilkynnt um lokahóp U-16 landsliðs Íslands í körfubolta drengja. Vestri á tvo leikmenn í þessum hópi en það eru tvíburarnir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir. Frábær árangur hjá þeim bræðrum en þeir tóku einnig þátt í verkefnum með U-15 landsliðinu á síðasta ári. Þess má geta að liðsfélagi þeirra úr liði Vestramanna, sameginlegu liði Vestra og Skallagríms í þessum aldurshópi, Marínó Þór Pálmason var einnig valinn í hópinn.
U-16 liðið tekur þátt í Norðurlandamóti í Finnlandi í lok júní og svo í Evrópukeppni FIBA síðasumars. Þjálfari liðsins er Ágúst Björgvinsson og aðstoðarþjálfari er Snorri Örn Arnaldsson.
Eins og við greindum frá fyrr í vetur hefur hefur Vestri, og KFÍ áður, aldrei átt fleiri þátttakendur í æfingahópum yngri landsliða. Alls voru tíu krakkar úr Vestra á aldrinum 15-17 ára valin í úrtakshópa sem æfðu undir stjórn landsliðsþjálfara á milli jóla og nýárs. Næstu tíðinda af yngri landsliðum í þessum aldurshópi er að vænta í lok mánaðarins þegar tilkynnt verður um U-15 landslið stúlkna og drengja.
Áfram Vestri!
Deila