Í dag tóku stelpurnar okkar á móti liði Skallagríms frá Borgarnesi og var um hörkuleik að ræða. Ef einhverjir héldu að andstæðingar okkar væru eitthvað að dútla sér þá sýndu gestir okkar að þeim var fúlasta alvara frá fyrstu mínútu og var leikurinn mjög jafn framan af og staðan eftir fyrsta leikhluta var 13-15 fyrir stelpurnar frá Borgarnesi.
Annar leikhluti var eins spennandi en þó voru gestir okkar ávallt skrefinu á undan með góðri baráttu og flottum körfum og náðu þær mest sjö stiga forskoti þegar um 4 mín voru eftir af fyrri hálfleik, en með mikilli baráttu komu okkar stelpur til baka og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 26-29 fyrir Skallagrím.
Það var hins vegar allt annað KFÍ lið sem mætti eftir tepásuna og fljótlega var staðan orðin 43-32 eftir frábæra vörn og skyndisóknir. En gestir okkar voru ekkert hættar og komu til baka og staðan 45-40 þegar síðasti leikhlutinn var flautaður á.
Stelpurnar okkar héldu haus í síðasta leikhlutanum og áttu alltaf svör við góðum sprettum Borgnesinga og skemmst frá því að segja að við tókum þennan leik. Lokatölur 63-57.
Það var jafnt og skemmtilegt KFÍ lið sem var á Jakanum í dag og settu allir mark sitt á leikinn. En fremst á meðal jafningja var þó Anna Fía sem spilaði frábærlega í vörn og sókn. Skammt á eftir voru þær Eva Margrét, Stefanía og Brittney. En Vera, Málfríður, Rósa og Sunna voru góðar einnig og vil ég hrósa öllu liðinu í dag fyrir góða leiðsheild og frábæran íþróttaanda. Það er unun að horfa á baráttuna hjá þessum stelpum og mega margir taka þær sér til fyrirmyndar.
Borganesbúar mega einnig vera stoltir af stelpunum sem komu hingað í dag. Það var engin uppgjöf og baráttan til fyrirmyndar.
Dómarar í dag voru Jón Hrafn og Pance og komust vel frá sínu.
Stig og fráköst:
Eva Margrét 18 stig og 5 fráköst (2 varin skot og 3/6 í þristum)
Stefanía 15 stig og 7 fráköst (5/5 í vítum)
Brittney 14 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar.
Anna Fía 12 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar. Maður leiksins!
Vera 2 stig, 3 fráköst og jaxl í vörn.
Rósa 2 stig, 2 fráköst og 2 stolnir.
Málfríður 2 fráköst og er í mikilli framför svo tekið er eftir.
Linda kom inn og rreif niður 2 fráköst.
Sunna kom inn og spilaði hörkuvörn og sleit niður 2 fráköst
Marelle kom inn og barðist vel.
Sem sagt, liðsbolti sem skilaði góðum sigri á Jakann og eru stelpurnar í þriðja sæti og hafa möguleika að komast í annað sætið með sigri á Þór Akureyri sem koma hingað um næstu helgi og spila tvo leiki.
Áfram KFÍ
Deila