Fréttir

Körfuboltabúðir KFÍ 2011 - Dagur 2

Körfubolti | 06.06.2011
Geoff Kotila ræðir við leikmenn fyrir æfingu dagsins
Geoff Kotila ræðir við leikmenn fyrir æfingu dagsins
1 af 7

Dagurinn byrjaði stundvíslega kl. 08:00 með æfingu hjá hópum 1-3.  Sömu þjálfarar stýrðu æfingum hópanna og í gær.  Grunnatriði körfuboltans voru á dagskrá allra hópa í dag og þeir sem halda áfram að vinna í þeim í sumar ættu að mæta sterkari til leiks að hausti.  Þetta er að sjálfsögðu engin ný vísindi en engu að síður megin skilaboð dagsins.

 

Geoff Kotila hélt áfram að vinna með hóp 4 og hitaði hann upp fyrir æfingarnar í dag, með 30 min fyrirlestri og spjalli við leikmenn. Útskýrir markmið æfinganna og eftir atvikum langtíma markmið og hvernig hann sér samhengi hlutanna. Góð ákefð í æfingum dagsins hjá þessum hópnum, og reyndar einnig hjá hinum yngri.

 

Nebosja Vidic hélt fyrsta fyrirlestur þjálfaranámskeiðsins. Viðfangsefnið var að sjálfsögðu eitt af grundvallaratriðum íþróttarinnar: Staða leikmanns í sóknarleik. Þessu kom Nebosja vel til skila, eins og við var að búast og allir sem á hlýddu fóru margs vísari frá þessari kennslustund. Nákvæmni í hreyfingum er lykillinn að árangri og sýndi Nebosja með aðstoða þriggja leikmanna hvernig bæta má þessi atriði.

 

Eftir staðgóðan hádegisverð tók annar fyrirlestur dagsins á þjálfaranámskeiðinu. Jón Oddson fór yfir undirstöðuatriði styrktar- og þolþjálfunar og skipulagi slíkra æfinga fyrir leiktímabil sem og samþáttun þeirra við aðrar æfingar á leiktímabili. Sköpuðust góðar umræður og Jón svaraði fyrirspurnum greiðlega. Þessi fyrirlestur tengdi saman marga punkta hjá þeim sem hafa tekið þátt í æfingum Jóns síðustu tvö árin og á fullt erindi við bæði þjálfara sem og íþróttamenn.

 

Sama þema var á seinni æfingu dagsins, eins og þeirri fyrri, þ.e. grundvallaratriði leiksins. Í lok æfinga var keppt í stuttum leikjum þar sem markmiðum dagsins var blandað saman við leikinn og örugglega "tengdu" margir enn betur en ella. Leikmenn voru öll löðursveitt og búin að skerpa vel á matarlyst þegar haldið var í kvöldverð, sem að þessu sinni var stektur fiskur frá Íslandssögu á Suðureyri.

 

Nú er að hefjast kvölddagskrá og skal leiðrétt að leikirnir hjá elstu hópunum í gær voru eingöngu upphitun, nú hefst alvaran í deildarkeppni Körfuboltabúða KFÍ 2011. Hópur 2 mun einnig hefja hraðmót innbyrðis og þeir leikmenn úr hópi 1 sem ekki hafa fullnægt hreyfiþörf dagsins mæta einnig og fara í léttari skotleiki og þvíumlíkt.

Deila