Að loknum frábærum málsverði í hádeginu var hvíldartími sem líklega einhverjir hefðu átt að taka aðeins meira bókstaflega. Æfingar hófust sem sagt aftur kl. 16:00 hjá hópum 1-3 og gengu vel fyrir utan væg þreytumerki sem sáust í fyrstu hjá stöku krakka. Það var þó svo að leikgleðin smitaði út frá sér og þegar nokkrar mínutur voru liðnar voru nánast allir orðinir eins sprækir og raun bar vitni í morgun. Æfingunni stýrðu þeir Nebojsa, Pétur, Tony og Hrafn. Þeir Unnþór Jónsson og Sigmundur Helgason voru þeim til aðstoðar.
Hvíldartíminn er einmitt mikilvægt atriði sem við viljum ítreka. Til þess að ná sem mestu út úr hverri æfingu verður íþróttamaður sem tekur hlutverk sitt alvarlega, að mæta vel hvíldur og tilbúinn í átökin hverju sinni. Einbeiting og líkamleg geta líða annars fyrir og æfingin spillist. Því eru hér með strax í upphafi, allir hvattir til þess að taka hvíldartíma alvarlega. Þessi skilaboð fengu krakkarnir frá þjálfurum búðanna.
Elsti hópurinn (hópur 4) mætti svo á seinni æfingu kl. 17:30 og fóru yfir undirstöðuatriði sóknarleiks undir leiðsögn Geoff og Tony. Tveir drengir úr Kópavoginum, Þröstur Kristjánsson og Jónas Torfason, bættust í hópinn á æfingunni, en þeir mættu beint úr flugi og voru snarlega boðnir velkomnir og því næst sendir rakleiðis á æfingu. Þeir reyndust fljótir að hitna og hrista af sér ferðarykið, og þar með er þessi hópur líklega fullmótaður.
Það voru því svangir krakkar sem héldu í kvöldmatinn kl. 19:00 og gæddu sér að þessu sinni á dýrindis ungverskri gúllassúpu og brauði. Gerðu gestir góðan róm að matnum en ekki var mikil hvíld að þessu sinni, því kvölddagskráin hófst kl. 20:00. Að þessu sinni voru það hópar 3 og 4, sem mættu en hópar 1 og 2 (yngstu iðkendurnir) fengu hvíld - sem mikið rétt er hornsteinn góðrar æfingar á morgun. Skipað var í fjögur lið sem þeir Hrafn, Tony, Geoff og Nebojsa stýrðu og munu þau keppa um titil búðanna í deildakeppni sem fram fer þessa vikuna. Eftir fyrstu umferð er það lið Hrafns sem leiðir, en það mun vera kunnugleg staða liða hans síðast liðið ár amk. Klukkan 21:30 voru ljósin slökkt og þeir sem eru á heimavistinni héldu þangað og fengu kvöldhressingu og fyrirmæli um að fara snemma í háttin (sjaldan verður góð vísa of oft kveðin!).
Á morgun hefjast æfingar kl. 08:00 og munum við greina frá framvindu mála síðar, en getum sagt frá því að leikur Dallas og Miami verður sýndur eftir hádegismatinn á morgun og ættu allir að geta sofið rótt. Góður dagur að kvöldi kominn og fín mynd að koma á búðirnar, eins og ævinlega.
Deila