Fréttir

Söguleg helgi á Sauðárkróki

Körfubolti | 27.09.2020
Vestri gerði góða ferð á Krókinn. Vann einn leik og tapaði einum.
Vestri gerði góða ferð á Krókinn. Vann einn leik og tapaði einum.

Meistaraflokkur kvenna hjá Vestra gerði góða ferð til Sauðárkróks um helgina og lék tvo leiki gegn heimastúlkum í Tindastóli. Ferðin var svo sannarlega söguleg því fyrri leikurinn, sem fram fór á laugardag, var fyrsti meistaraflokksleikur kvennaliðs félagsins undir merkjum Vestra. Seinni leikurinn var ekki síður sögulegur því í honum gerðu stelpurnar sér lítið fyrir og lönduðu fyrsta sigri meistaraflokks kvenna undir merkjum Vestra.

Ekki er hægt að segja að aðdragandi ferðarinnar hafi verið eins og best verður á kosið. Þótt liðið hafi æft vel á undirbúningstímabilinu eru aðeins fáeinir dagar síðan það varð fullskipað þar sem Olivia Crawford þurfti eðlilega að vera í sóttkví við komuna til landsins. Fleiri Covid tengdar áskoranir komu til því skömmu fyrir brottför þurfti Pétur Már Sigurðsson þjálfari að fara í úrvinnslusóttkví. Liðið hélt því af stað þjálfaralaust norður snemma á laugardagsmorgun með farar- og liðsstjórann Jóhann Bæring Gunnarsson í broddi fylkingar.

Þrátt fyrir þetta mótlæti var ljóst frá fyrstu mínútu fyrri leiksins að Vestrastelpur eru ekki mættar í meistaraflokk sem áhorfendur. Pétur Már, Jóhann Bæring og Olivia Crawford leystu svo úr því í sameiningu að stýra liðinu með frábæru samstarfi í gegnum fjarskipti. Að leik loknum hafði Pétur Már orð á því að þetta væri í fyrsta sinn sem hann stýrði liði í 460 kílómetra fjarlægð. Vonandi verður það jafnframt í það síðasta. Þótt leikurinn hefði tapast var margt jákvætt hægt að taka úr honum til að byggja ofan á daginn eftir og inn í tímabilið. Sem dæmi má nefna að allir leikmenn liðsins brutu ísinn hvað stigaskor varðar og komust á blað í sínum fyrsta leik.

Pétur fékk svo fararleyfi frá heilbrigðisyfirvöldum á laugardagskvöld og brunaði norður eldsnemma á sunnudagsmorgunn í tæka tíð til að stýra liðinu í seinni leiknum. Sá leikur var jafnari, þótt heimaliðið hafi haft yfirhöndina megnið af leiknum. Þegar síðasti leikhlutinn var rúmlega hálfnaður var Tindastóll kominn í 14 stiga forystu, 44-30. Á þessum tímapunkti steig Olivia Crawford upp, skoraði 5 stig í röð og minnkaði muninn í 9 stig. Þá tók Pétur leikhlé og má segja að sú herkænska sem lagt var upp með eftir það hafi gengið fullkomnlega upp. Olivia hélt áfram að vera atkvæðamikil sóknarlega og Sara Emily átti einnig mikilvægar körfur. Svæðisvörn liðsins gekk vel upp og geigaði hvert skot Tindastóls á fætur öðru af vinstri vængnum sem skilaði sér í góðum fráköstum Kötlu Maríu á hægri vængnum. Þegar aðeins rúmar tvær mínútur voru til leiksloka jafnaði Olivia leikinn og Sara kom Vestra svo yfir í næstu sókn. Vestrastelpur kláruðu leikinn síðan með prýði og sigldu sínum fyrsta sigri örugglega í höfn 49-54.

Tölfræði leiksins má nálgast á vef KKÍ.

Næsta verkefni stelpnanna eru svo aftur tveir útileikir um næstu helgi gegn Fjölni B í Dalhúsum Grafarvogi, kl. 15:30 á laugardag og 15:00 á sunnudag. Fyrstu heimaleikir liðsins fara svo fram helgina 10.-11. október þegar Stjarnan kemur í heimsókn. Við hvetjum að sjálfsögðu alla Ísfirðinga og nærsveitunga til að fjölmenna á Torfnes og styðja við bakið á stelpnum.

Áfram Vestri!

Deila