Fréttir

Vestrabúðum frestað um ár

Körfubolti | 26.01.2021
Mikil gleði ríkit í Körfuboltabúðum Vestra vorið 2019. Engar búðir verða haldnar í ár vegna Covid-19 og stefnan þess í stað tekin á vorið 2022.
Mikil gleði ríkit í Körfuboltabúðum Vestra vorið 2019. Engar búðir verða haldnar í ár vegna Covid-19 og stefnan þess í stað tekin á vorið 2022.

Framkvæmdastjórn Körfuboltabúða Vestra hefur tekið þá erfiðu ákvörðun að halda ekki Vestrabúðirnar í ár en koma þess í stað tvíefld til leiks með búðirnar á hefðbundnum tíma í júníbyrjun 2022.

Ákvörðunin er tekin í ljósi þess að enn er mikil óvissa tengd þróun Covid-19 veirunnar og erfitt að spá fyrir um stöðu mála í vor. Einnig spilar inn í ákvörðunina að allt mótahald KKÍ teygir sig nú lengra inn í vorið og á það einnig við um yngri flokka þar sem úrslit eru áætluð í lok maí. Ýmis afreksverkefni KKÍ eru síðan á dagskrá strax í júní og því er svigrúmið til búðahalds fyrir sumarfríin minna en oftast áður.

Eins og körfuboltaáhugafólk veit varð Covid-19 einnig til þess að Vestrabúðirnar 2020 féllu niður. Vestrafólk freistaði þess í fyrra að færa búðirnar frá júní til ágúst en faraldurinn kom í veg fyrir þær fyrirætlanir. Af ýmsum orsökum telur framkvæmdastjórnin ekki gerlegt að finna nýja dagsetningu fyrir búðirnar síðar í sumar og því liggur ákvörðun um frestun til ársins 2022 fyrir.

Deila