Námskeið í formi málþings, fyrir foreldra barna- og ungmenna í íþróttum, verður haldið í Menntaskólanum á Ísafirði miðvikudagskvöld 15. febrúar og hefst kl. 20:00
Námskeiðið er liður í leiðbeinenda/þjálfaranámi ÍSÍ sem nemendur Menntaskólans hafa valið sér á vorönn 2012.
Dagskráin byrjar með umfjöllun fræðslufulltrúa ÍSÍ, Viðars Sigurjónssonar, um foreldrastarf í tengslum við íþróttaiðkun barna- og ungmenna.
Íþrótta-mamma Friðgerður Ómarsdóttir og íþrótta-pabbi Kristján Jóakimsson sem bæði hafa átt þrjú – fjögur börn í íþróttum, segja frá reynslu sinni af því að styðja börnin sín í íþróttastarfinu. Hvað það útheimtir að veita þeim aðstoð og aðhald og hvetja til dáða. Hvaða vinna og tími fer í slíkan stuðning og hvað það gefur foreldrum að vera þátttakendur í starfi með barni sínu að áhugamáli þess.
Margreyndur þjálfari, Ingvar Ákason, sem skipulagt hefur fjölbreytta félagslega þátttöku barna- og ungmenna samhliða íþróttaæfingum og keppni, segir frá samstarfi sínu við foreldra þeirra. Hann mun einnig fjalla um mikilvægi þess að foreldrar starfi með börnum sínum fram yfir unglingsár og styðji þau allan tímann.
Tvö ungmenni sem æfa keppnisíþróttir Ebba Kristín Guðmundsdóttir og Halldór Páll Hermannsson segja frá upplifun sinni af þátttöku foreldra og stuðningi í íþróttastarfinu.
Skólastjóri íþróttaskóla HSV Kristján Flosason kynnir starfsemi skólans.
Stuttar umræður og fyrirspurnir verða að loknu hverju erindi.
Boðið verður upp á kaffispjall við nokkur hringborð að lokinni dagskrá. Ritarar skrá niður athugasemdir, hugmyndir og tillögur sem fram koma í umræðum að bættu samstarfi íþróttafélaga og foreldra. Leitast verður við fá fram skilgreiningu á því hvað felst í foreldrastarfi barna- og ungmenna í íþróttum.
Stjórnandi verður Hermann Níelsson sviðsstjóri íþrótta við Menntaskólann á Ísafirði.
Deila