Blak | 28.02.2013
Höfrungur og Skellur sendu sameinað lið í 3. flokki kvenna á bikarmót 2. og 3. flokks í Reykjavík helgina 23.-24. febrúar. Liðið var skipað þremur stúlkum frá Ísafirði, tveimur frá Þingeyri og einni frá Suðureyri. Stelpurnar höfðu ekki spilað mikið allar saman, en náðu einstaklega vel saman á mótinu og liðið óx með hverjum leik.
Guðrún og Steinn frá Þingeyri keyrðu suður á tveimur fólksbílum. Guðrún var fararstjóri og gisti með hópnum. Harpa flaug suður í tengslum við vinnu og stjórnaði liðinu á mótinu. Ferðin gekk rosalega vel - ekki hægt að biðja um betri færð á þessum árstíma - allt autt.
Á bikarmótum er ekki skipt í getuflokka heldur eru öll liðin saman í deild. Skellur var í riðli með Þrótti N A, HK og Stjörnunni. Á laugardeginum var leikin heil umferð og töpuðu stelpurnar okkar fyrir Þrótti og HK enda eru það hvoru tveggja mjög sterk lið með leikmönnum sem sumir hverjir eru farnir að leika með meistaraflokksliðum í 1. deild. Þær stóðu sig samt mjög vel á móti þessum liðum og náðu alveg að stríða þeim svolítið. Leikurinn á móti Stjörnunni tapaðist naumlega 2-1. Daginn eftir kepptu þær um 5.-7. sæti og þá byrjuðu þær á að vinna Stjörnuna nokkuð örugglega. Síðan spiluðu þær hörkuspennandi leik á móti KA, sem tapaðist með minnsta mögulega mun 2-1 og 16-14 í úrslitahrinunni. Þær enduðu því í 6. sæti af 7 liðum. Liðið óx og dafnaði með hverjum leiknum. Stelpurnar náðu vel saman og voru duglegar að hvetja hver aðra. Þær eru að spila fastar stöður núna í fyrsta sinn á móti og það gekk mjög vel - þær hafa kollinn í lagi!
Guðrún fór með stelpurnar í skautahöllina eftir leikina á laugardeginum, þar var rosa stuð og allir skemmtu sér þrusuvel. Svo var farið á KFC til að fá sér í gogginn. Þær fórum bara snemma upp í skóla og sátu og spjölluðu og fóru í leiki og snemma að sofa. Eftir leiki á sunnudeginum var farið í sund í Árbæjarlaug og svo fengu sér allir ís áður en lagt var af stað heim á leið. Ferðin heim gekk líka mjög vel - allir þreyttir en ánægðir eftir góða helgi.
Takk fyrir stelpur þið stóðuð ykkur súper vel og gaman að kynnast ykkur öllum.