Fréttir

5. flokkur Íslandsmeistarar A-liða!

Blak | 21.05.2013 Síðasta mótið á Íslandsmótaröðinni í 5. og 6. flokki var spiluð í Neskaupstað dagana 12.-13. apríl. Er skemmst frá því að segja að  5. flokks lið Skells varð Íslandsmeistarar A-liða eftir harða baráttu, en í liðinu eru bæði strákar og stelpur frá Suðureyri og Ísafirði. Í 5. flokki voru deildir ekki kynjaskiptar, enda ekki sérstakur getumunur á strákum og stelpum í blaki á þessum aldri. Samtals voru 25 lið í 5. flokki á mótinu þannig að árangurinn er glæsilegur.

Lið Skells í 6. flokki náði líka góðum árangri en þau kepptu mikla baráttuleiki og unnu tvo en töpuðu tveimur á þessu móti. Þau unnu alla leikina á fyrra mótinu sínu, en ekki eru reiknuð sæti á Íslandsmótinu í 6. flokki heldur fá allir þátttökupening.

Hérna fyrir neðan er ferðasagan í stuttu máli, en fleiri myndir úr ferðinni eru á Facebook síðu Blakfélagsins Skells:

Ferðin gekk vel og var viðburðarík. Flugvélin náði sem betur fer að lenda á milli élja á Ísafirði á föstudagsmorgni og á flugvellinum í Reykjavík hittum við Pál Óskar sem var líka á leið til Neskaupstaðar að spila á unglingaballi. Hann gaf eiginhandaráritanir með glöðu geði og stillti sér upp til myndatöku með krökkunum. Farið var með rútu frá Egilsstöðum til Neskaupstaðar og á leiðinni sáum við hóp af hreindýrum rétt við veginn. Ekki slæmt að ná bæði Páli Óskari og hreindýrum strax á fyrsta degi! Við spiluðum æfingaleiki við fullt af krökkum í gulum búningum (Þrótt Nes) og það gekk mjög vel. Síðan fórum við í kaffiboð til afa og ömmu Kára (foreldra Hörpu) og síðan voru gerðar pizzur í skólanum.

Á degi tvö var ræs kl. 6:45, morgunverður og svo beint í leiki. Liðunum gekk vel og krakkarnir voru duglegir og prúðir. 5. flokks liðið vann alla sína leiki þennan dag og 6. flokkur vann einn leik og tapaði tveimur en þeir fóru báðir í oddahrinu. Eftir leikina var farið í laaanga og skeeemtilega sundferð - tveir og hálfur tími takk fyrir og mörg hundruð ferðir samtals í Dóra rauða, en stóra rennibrautin heitir það. Skúffukaka og mjólk og svo var matur og kvöldvaka. Krakkarnir okkar fóru að sjálfsögðu á kostum á kvöldvökunni og eignuðust marga nýja vini.

Síðasta daginn var líka vaknað eldsnemma og spilaðir leikir. 6. flokkur vann sinn leik - í oddahrinu að sjálfsögðu. 5. flokkur vann einn og tapaði einum sem dugði þeim til Íslandsmeistaratitils.

Þetta er í þriðja sinn sem lið frá Skelli verður Íslandsmeistari í 5. flokki, en í fyrsta sinn hjá þessum krökkum. Við erum virkilega stolt af krökkunum okkar og sjáum fyrir okkur bjarta framtíð blaksins á Norðanverðum Vestfjörðum.
Deila