Auður Líf Benediktsdóttir blakari hlaut í dag titilinn efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2016. Hverju íþróttafélagi býðst að tilnefna leikmenn í valinu um íþróttamann ársins og efnilegasta íþróttamanninn. Af hálfu Blakdeildar Vestra var Auður tilnefnd sem efnilegasti íþróttamaðurinn og Tihomir Paunovski var tilnefndur í flokknum íþróttamaður Ísafjarðarbæjar. Kristín Þorsteinssdóttir, sundkona frá íþróttafélaginu Ívari var valin íþróttamaður Ísafjarðarbæjar.
Það er afar ánægjulegt að blakkona hafi orðið fyrir valinu og er það í fyrsta skipti sem blakari hlýtur slíkan titil hjá Ísafjarðarbæ. Þetta sýnir vonandi að tekið sé eftir góðu starfi blakdeildarinnar, en við eigum marga efnilega íþróttamenn, bæði stelpur og stráka.
Auður er vel að titilinum komin, en hérna er samantekt úr umsögn sem fylgdi hennar tilnefningu:
Auður Líf Benediktsdóttir hefur æft og spilað blak frá 7 ára aldri. Hún á fjölmarga Íslandsmeistaratitla í yngri flokkum og er nú lykilleikmaður með meistaraflokki Vestra í blaki. Á árinu 2016 var hún valin í U17 landsliðið í blaki þar sem hún stóð sig sérlega vel. Þar að auki spilaði hún og keppti í strandblaki á Möltu um sumarið með góðum árangri.
Og hér er úrdráttur umsögn sem fylgdi tilnefningu Tihomirs
Tihomir Paunovski flutti frá Makedóníu til Ísafjarðar í janúar 2016 til að þjálfa og spila með blakdeild Vestra. Hann er fyrrum atvinnumaður í blaki og hefur einnig mikla reynslu sem þjálfari. Tihomir er afar góður leikmaður, á getustigi sem sjaldséð er hér á landi. Hann hefur einnig reynst vel sem þjálfari og ungum blökurum í Vestra hefur farið hratt fram undir hans stjórn. Hann á stóran þátt í því að karlalið Vestra situr nú í langefsta sæti 1. deildarinnar í blaki.
Hér eru listar yfir tilnefningarnar, en það er ljóst að Ísafjarðarbær á marga góða og efnilega íþróttamenn:
Íþróttafélögin í Ísafjarðarbæ hafa tilnefnt eftirfarandi í valinu um íþróttamann ársins:
Albert Jónsson Skíðafélag Ísfirðinga
Anton Helgi Guðjónsson Golfklúbbur Ísafjarðar
Daniel Osafu-Badu Knattspyrnudeild Vestra
Haraldur Hannesson Knattspyrnudeild Harðar
Jens Ingvar Gíslason Handboltadeild Harðar
Kristín Þorsteinsdóttir Íþróttafélagið Ívar
Nebojsa Knezevic Körfuknattleiksdeild Vestra
Tihomir Paunovski Blakdeild Vestra
Valur Richter Skotíþróttafélag Ísafjarðar
Í valinu um efnilegasta íþróttamanninn eru eftirtaldir tilnefndir:
Auður Líf Benediktsdóttir Blakdeild Vestra
Ásgeir Óli Kristjánsson Golfklúbbur Ísafjarðar
Jón Ómar Gíslason Handboltadeild Harðar
Nökkvi Harðarson Körfuknattleiksdeild Vestra
Sigurður Hannesson Skíðafélag Ísfirðinga
Þráinn Ágúst Arnaldsson Knattspyrnudeild Vestra
Deila