Sannkölluð blakveisla verður í Íþróttahúsinu á Torfnesi um næstu helgi en þá verður keppt í fyrstu umferð 3.deildar kvenna á Íslandsmótinu í blaki og munu um eitt hundrað konur ásamt þjálfurum mæta á svæðið.
Fjórtán lið taka þátt í 3.deildinni í vetur og er deildinni jafnframt skipt í tvo riðla. Hvert lið spilar sex leiki og hefst keppni kl.9 á laugardagsmorgni og verður spilað til um kl.17, á sunnudeginum hefst svo keppni kl.8 og verður spilað til kl.14.
Dómgæsla í mótinu er að mestu leyti í höndum félagsmanna sem tóku þátt í dómaranámskeiði síðasta haust.
Áhorfendur eru hvattir til að mæta og hvetja sitt heimalið en aðgangur er ókeypis. Yngri flokkar félagsins munu sjá um veitingasölu báða dagana og mun allur ágóði af henni renna í ferðasjóð þeirra en fyrri umferð Íslandsmót yngri flokka BLÍ fer einmitt fram á Akureyri um þar næstu helgi.
Við munum síðan þegar líður á vikuna heyra í þjálfaranum um liðið og mótið framundan og jafnframt setja inn tímasetningar leikja hjá Skelli.
Deila