Fréttir

Frábær ferð á Íslandsmót

Blak | 09.11.2009

Ferðin til Neskaupstaðar á Íslandsmót 4. og 5. flokks í blaki gekk eins og í sögu. Flogið var frá Ísafirði um miðjan dag á föstudegi og farið í keilu í Reykjavík meðan við biðum eftir vélinni til Egilsstaða. Frá Egilsstöðum tókum við rútu til Neskaupstaðar og vorum komin þangað um kl. 21 um kvöldið.

 

Mótið var síðan á laugardegi og fram að hádegi á sunnudegi. Í stuttu máli sagt fór árangur krakkanna fram úr björtustu vonum þjálfaranna. Öll voru þau að spila sitt allra besta blak og tilþrifin voru hreint ótrúleg. Enda eru sjálfsagt margir með einhverja marbletti eða brunafar eftir að hafa skutlað sér í gólfið og bjargað boltanum á ótrúlegan hátt:-).

 

  • Skellur 1 í 5. flokki náði bestum úrslitum af Skells-liðunum. Þau unnu alla leiki í sínum riðli og þar með riðilinn.  Þar með komust þau í úrslitaleik mótsins en töpuðu honum naumlega í oddahrinu.  Eftir fyrri umferð Íslandsmótsins eru þau því í 2. sæti af 12 liðum í sinni deild, aðeins einu stigi á eftir liðinu í fyrsta sæti. Liðið skipa þau Bjarni Pétur, Birkir, Auður Líf, Ívar Tumi og Aron Dagur og vert er að benda á það að þau eru öll nema eitt fædd árið 2000 og eru því að spila upp fyrir sig, þ.e. þau ættu í raun að vera í 6. flokki.
  • Skellur 2 í 5. flokki enduðu í 10 sæti í þessari sömu deild. Þau unnu tvo leiki og voru nálægt því að vinna fleiri hrinur. Liðinu fór mikið fram meðan á mótinu stóð og við höldum að þau eigi eftir að taka stórstígum framförum núna á næstunni ef þau verða dugleg að æfa sig. Í liðinu voru þau Ágúst Orri, Ísak Andri, Kjartan Óli, Ólína Halla og Ólöf Dagmar. Benedikt Hrafn var veikur og komst því miður ekki með.
  • Skellur 1 í 4. flokki spilaði 4. stig og var í deild með öllum bestu liðunum á landinu í þessum flokki. Þau enduðu í 4. sæti af 6 liðum í deildinni sem verður að teljast mjög gott. Þróttur Nes er með besta liðið í þessari deild og eiga okkar krakkar ekki mikinn séns í það, enda eru það allt krakkar sem hafa æft mun lengur en við.  Spennandi leikir náðust á móti öllum öðrum liðum og stundum töpuðust hrinur með minnsta mögulega mun, þ.a. það mátti litlu muna að stigin yrðu fleiri. Liðið skipa þau Daði Freyr, Klaudia, Magðalena (Lena) og Regína Huld
  • Skellur 2 í 4. flokki spilaði 3. stig og voru 3 lið í þeirra deild.  Spiluð var tvöföld umferð og hafnaði Skellur í 2. sæti. Þetta lið kom mjög á óvart þar sem í því voru líka krakkar sem eru nýbyrjaðir í blaki, en liðinu fór fram með hverjum leik og var að gera virkilega góða hluti. Í liðinu voru Dóróthea, Eva Karen, Karl Viðar, Svanhildur og Viktoría Auður.

 

 

Loka-úrslit mótsins má nálgast hér: http://krakkablak.bli.is/default.asp?page=upplvefur/lokastada.asp  Tekið skal fram að þetta var fyrri hluti Íslandsmótsins, en seinni hlutinn verður spilaður í Kópavogi 16.-18. apríl. Úrslit Íslandsmótsins verða samanlögð úrslit úr þessum tveimur mótum.

 

Á laugardeginum fóru krakkarnir í vöfflur á milli leikja til foreldra Hörpu (afa og ömmu Birkis) en þau búa einmitt í Neskaupstað. Flestum þótti ágætt að komast úr hávaðanum í íþróttahúsinu í smá stund.  Eftir leikina var farið í sundlaugina, en þar eru stórar og flottar rennibrautir sem voru óspart nýttar. Um kvöldið var síðan diskótek fyrir öll liðin.  Á sunnudeginum var lagt af stað með rútunni eftir hádegismatinn og flugið gekk vel á Ísafjörð. 

 

Teknar voru myndir af öllum liðum og fá krakkarnir eintak af mynd af liðinu sem þau voru í. Við ættum að fá þær sendar í vikunni.

Myndir frá ferðinni eru einnig komnar inn á myndasíðuna.
 

Við þjálfararnir höfum trú á því að svona mót séu gríðarlega hvetjandi fyrir krakkana. Þau voru öll svo dugleg og lögðu sig mikið fram og sjá núna hvað þau geta og hvert þau geta stefnt.

 

Við þökkum fyrir frábæra helgi.   

 

Þjálfarar og fararstjórar.

 

Deila