Ferðin til Neskaupstaðar á Íslandsmót 4. og 5. flokks í blaki gekk eins og í sögu. Flogið var frá Ísafirði um miðjan dag á föstudegi og farið í keilu í Reykjavík meðan við biðum eftir vélinni til Egilsstaða. Frá Egilsstöðum tókum við rútu til Neskaupstaðar og vorum komin þangað um kl. 21 um kvöldið.
Mótið var síðan á laugardegi og fram að hádegi á sunnudegi. Í stuttu máli sagt fór árangur krakkanna fram úr björtustu vonum þjálfaranna. Öll voru þau að spila sitt allra besta blak og tilþrifin voru hreint ótrúleg. Enda eru sjálfsagt margir með einhverja marbletti eða brunafar eftir að hafa skutlað sér í gólfið og bjargað boltanum á ótrúlegan hátt:-).
Loka-úrslit mótsins má nálgast hér: http://krakkablak.bli.is/default.asp?page=upplvefur/lokastada.asp Tekið skal fram að þetta var fyrri hluti Íslandsmótsins, en seinni hlutinn verður spilaður í Kópavogi 16.-18. apríl. Úrslit Íslandsmótsins verða samanlögð úrslit úr þessum tveimur mótum.
Á laugardeginum fóru krakkarnir í vöfflur á milli leikja til foreldra Hörpu (afa og ömmu Birkis) en þau búa einmitt í Neskaupstað. Flestum þótti ágætt að komast úr hávaðanum í íþróttahúsinu í smá stund. Eftir leikina var farið í sundlaugina, en þar eru stórar og flottar rennibrautir sem voru óspart nýttar. Um kvöldið var síðan diskótek fyrir öll liðin. Á sunnudeginum var lagt af stað með rútunni eftir hádegismatinn og flugið gekk vel á Ísafjörð.
Teknar voru myndir af öllum liðum og fá krakkarnir eintak af mynd af liðinu sem þau voru í. Við ættum að fá þær sendar í vikunni.
Myndir frá ferðinni eru einnig komnar inn á myndasíðuna.
Við þjálfararnir höfum trú á því að svona mót séu gríðarlega hvetjandi fyrir krakkana. Þau voru öll svo dugleg og lögðu sig mikið fram og sjá núna hvað þau geta og hvert þau geta stefnt.
Við þökkum fyrir frábæra helgi.
Þjálfarar og fararstjórar.
Deila