Fréttir

Ísfirðingur í atvinnumennsku í blaki.

Blak | 01.07.2024
https://www.svenskalag.se/habowolley
https://www.svenskalag.se/habowolley

Ísfirðingurinn Hafsteinn Már Sigurðsson mun á komandi tímabili spila með karlaliði Habo í sænsku úrvalsdeildinni í blaki, en gengið var frá samningum um það í síðustu viku.

Habo er 12 þúsund manna bær í sunnanverðri Svíþjóð, staðsett við Vatten, sem er eitt af stærstu stöðuvötnum í landinu.  Blaklið Habo er að mestu byggt upp á ungum heimamönnum en hefur engu að síður staðið sig vel í Sænsku deildinni og endað í topp 4 í deildinni síðustu tímabil.

Hafsteinn Már er uppalinn í Vestra í gegnum yngriflokka, en byrjaði að spila með karlaliðinu tímabilið 2015-16, á fyrsta tímabili Vestra í næst efstu deild í blaki.  Fjórum árum síðar hóf Vestri þátttöku í úrvalsdeild, eftir að hafa unnið 1. deild tvisvar.  Með Vestra hefur Hafsteinn Már spilað allar stöður á vellinum, en hefur undanfarin ár spilað stöðu Dió og hefur sem slíkur verið kjörinn tvisvar í draumalið úrvalsdeildarinnar síðustu fjögur ár og var eftir síðasta tímabil valinn besti íslendingurinn í deildinni.

Með Hafstein Má sem fyrirliða, náði úrvalsdeildarlið Vestra tvisvar að enda í 4 sæti í deildinni og komast jafn oft í undanúrslit í Kjörísbikarnum.  Síðustu tvö tímabil hefur Hafsteinn Már verið í námi fyrir sunnan og spilað með úrvalsdeildarliði Aftureldingar og spilaði í vor til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn á móti Hamri.

Hafsteinn Már hefur spilað með Íslenska landsliðinu frá árinu 2016, þá fyrst með U17, en hefur síðustu 3 ár spilað með A-landsliðinu og verið með öflugustu leikmönnum liðsins.

Deila