Blak | 24.10.2012
Næstkomandi helgi, 27. og 28. október fer fyrsta mótið fram í mótaröð Íslandsmótsins í 3. deild í blaki - Suður- og Vesturland. Bæði verður keppt í kvenna- og karlaflokki og á Skellur lið í báðum flokkum. Í 3. deild kvenna eru sjö lið skráð til keppni en fjögur lið í 3. deild karla. Það má því búast við að keppendur verði um 80 talsins og koma liðin frá höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Laugavatni og svo Ísafjarðarbæ. Blakfélagið Skellur hefur undirbúið mótið í samvinnu við Blaksamband Íslands og er Ásdís Birna Pálsdóttir mótsstjóri. Ljóst er að spennandi leikir eru framundan hjá Skellsliðunum og þurfa þau að sýna góða takta til að krækja í hagstæð úrslit. Kvennaliðið spilar sex leiki yfir helgina og karlaliðið fimm. Bæjarbúar eru hvattir til að kíkja við og horfa á skemmtilegt blak og fá sér kaffi og með'í í kaffisölunni á mótinu sem er til styrktar yngri flokkum Skells.
Kvennalið Skells hefur leikið í 3. deild Íslandsmótsins í nokkur ár með ágætis árangri. Besta árangrinum náði liðið árið 2011 þegar það endaði í 3. sæti í 3. deild á landsvísu en tapaði aðeins einum leik allt tímabilið, sem því miður var undanúrslitaleikur. Í fyrra endaði liðið í 4. sæti. Í kvennaflokki er nú keppt í sex deildum á Íslandsmótinu og 3. deildin hefur styrkst mikið síðustu árin og þar eru engir auðveldir leikir. Það má því segja að það sé nokkuð góður árangur hjá Skelli að vera að spila í 3. deild en að sjálfsögðu er markið sett á verðlaun og ekki væri verra að komast einhvern tímann upp í 2. deild! Kvennalið Skells er nokkuð sterkt í ár, en tveir nemar úr haf- og strandsvæðanámi Háskólaseturs Vestfjarða spila með aðalliðinu og eru þær báðar vanir blakarar. Fyrstu leikmennirnir úr yngriflokka starfi Skells eru einnig farnir að banka upp á hjá meistaraflokki og því er liðið skipað ungum og eldri leikmönnum í bland.
Karlalið Skells hefur ekki leikið áður á Íslandsmótinu og er þetta í fyrsta sinn sem spilað er í 3. deild karla. Það er því ómögulegt að segja til um hvernig liðið stendur miðað við hin liðin, og það verður gaman að sjá hvernig þetta kemur til með að ganga. Karlalið Skells hefur líka fengið nýja leikmenn í haust, bæði úr Háskólasetrinu og einnig hafa pólskir leikmenn frá Suðureyri verið duglegir að mæta á æfingar og einn þeirra reyndist mjög vanur spilari.
Hér að neðan eru leikir heimaliðanna um helgina og eru heimamenn hvattir til að kíkja við og hvetja Skell:
Laugardagur:
11:00 Skellur - Fylkir B kk
12:00 Skellur - Álftanes kvk
13:00 Skellur - Stjarnan 3 kk
14:00 Skellur - Fylkir B kvk
15:00 Skellur - UMFL kk
16:00 Skellur - Stjarnan B kvk
Sunnudagur:
9:00 Skellur - Afturelding C kvk
10:00 Skellur - Fylkir B kk
11:00 Skellur - HK C kvk
12:00 SKellur - Stjarnan 3 kk
13:00 Skellur - Bresi kvk
Deila