Fjölmennt lokahóf Skells/Vestra blak var haldið í íþróttahúsinu Torfnesi fimmtudagskvöldið 19. maí. Byrjað var á að sprikla í íþróttasalnum - eldri og yngri leikmenn, systkin og foreldrar.
Síðan var hlaðborð þar sem allir lögðu í púkkið. Farið yfir veturinn og Tiho þjálfari tilkynnti val sitt á bestu og efnilegustu leikmönnum karla og kvenna. Að þessu sinni voru valin
Besti leikmaður karla: Karol Maliszewski
Efnilegasti leikmaður karla: Hafsteinn Már Sigurðsson
Besti leikmaður kvenna: Harpa Grímsdóttir
Efnilegasti leikmaður kvenna: Auður Líf Benediktsdóttir
Mikið er um að vera hjá Skelli þennan mánuðinn. Síðustu helgi voru hjá okkur landsliðsþjálfarar með æfingabúðir fyrir alla hópa. Framkvæmdir eru í fullum gangi við strandblakvöllinn í Tungudal og þar fer fram mikil sjálfboðavinna félaga. Fyrirtæki á svæðinu hafa verið dugleg að styrkja verkefnið og erum við þakklát fyrir það. Framundan er síðan fjöruhreinsun og einnig halda meistaraflokkar Skells utanum kvennahlaupið sem verður haldið 4. júní.
Leikmenn Skells munu síðan demba sér í sandinn um leið og strandblakvöllurinn verður tilbúinn. Strandblak er spilað í tveggja manna liðum og eru haldin mót víðsvegar um landið. Á Dýrafjarðardögum verður eins og venjulega eitt af stigamótum Blaksambandsins spilað á Þingeyri.