Þá er skemmtilegri og ævintýralegri blakferð lokið og allir þreyttir en vonandi sáttir og sælir. Tekin var ákvörðun um að taka Baldur heim og koma yfir Dynjandis- og Hrafnseyrarheiðar. Við vonuðumst til þess að klárað yrði að moka Hrafnseyrarheiði, en vorum annars með plan B sem var að fá snjóbíl á móti okkur og ferja okkur yfir þennan stutta kafla. Í ljós kom að við þurftum að nota það plan og gekk það mjög vel. Til að flýta ferðinni gengum við af stað á móti snjóbílnum, enda blíða á heiðinni, og skildum farangurinn eftir í rútunni. Tekið skal fram að snjóbíllinn fór gamla vetrarveginn þar sem ekki var snjóflóðahætta á ferð.
Nú hefur verið hætt við að opna Hrafnseyrarheiði fyrir páska þannig að við þurfum að reyna að nálgast farangurinn í rútunni og látum ykkur vita þegar okkur hefur tekist að koma honum hingað til Ísafjarðar.
Setjum inn myndir og nánari ferðasögu mjög fljótlega.
Kveðja, Harpa
Deila