Fréttir

Nýr formaður Skells

Blak | 27.03.2012 Aðalfundur Skells 2012
Skýrsla formanns

 

Árið 2011 var að mörgu leyti gott ár hjá Blakfélaginu Skelli. Töluverð gróska var í yngri flokka starfi félagsins og félagið hélt úti sameiginlegum æfingum fyrir konur og karla hjá meistaraflokkum félagsins nú eins og áður. Á Íslandsmótum náðu kvennalið félagsins og yngri flokkar þess sérlega góðum árangri.

 

Þjálfaramál
Jamie Landry var aðalþjálfari félagsins veturinn 2010-2011 og þjálfaði því bæði meistaraflokka og yngri flokka á Ísafirði. Þorgerður Karlsdóttir þjálfaði sem áður yngri flokka félagsins á Suðureyri. Jamie flutti aftur til Bandaríkjanna vorið 2011 og auglýsti Skellur þá eftir aðalþjálfara fyrir félagið án árangurs. Harpa Grímsdóttir tók þá aftur við þjálfun meistaraflokkanna haustið 2011 og Harpa ásamt Sólveigu Pálsdóttur og Auði Rafnsdóttur tóku við þjálfun yngri flokka á Ísafirði.

 

Meistaraflokkur kvenna
Meistaraflokkur Skells í kvennaflokki var með óvenjusterkt lið veturinn 2010-2011. Þrír vanir og sterkir blakarar voru við meistaranám hjá Háskólasetri Vestfjarða og naut Skellur krafta þeirra. Fleiri ungar konur úr náminu skiluðu sér á blakæfingar án þess að hafa spilað blak áður og því var kvennaliðið óvenju fjölmennt, ungt og frískt. Meistaraflokkur kvenna var með lið í 3. deild Íslandsmótsins eins og næstu ár á undan og náði liðið sínum langbesta árangri til þessa. Það vann alla leiki mótsins nema undanúrslitaleikinn og því hafnaði Skellur aðeins í 3. sæti þrátt fyrir að hafa unnið flesta leiki allra liða. Efsta lið 3. deildar fer upp í 2. deild. Uppsetning Íslandsmótsins í 3. deild kvenna er umhugsunarefni. Það samanstendur af þremur mótum eða "túrneringum", en aðeins síðasta mótið skiptir í raun máli. Það eiga allir nokkurn veginn jafna möguleika á því að sigra á því móti hvernig sem árangurinn hefur verið fram að því. Staðan sem Skellur lenti í á síðasta tímabili vakti athygli margra liða á þessu fyrirkomulagi 3. deildar. En það stefndi í að Skellur myndi missa þrjá sterka leikmenn eftir tímabilið og myndi hugsanlega ekki hafa nægilega sterkt lið fyrir 2. deild og því var árangrinum og 3. sætinu bara fagnað. Þar að auki var Jamie Landry valin besti leikmaður 3. deildar.

 

Haustið 2011 var fyrsta lotan í Íslandsmótinu leikin og náði Skellur viðunandi árangri. Staðan er nú sú að 8 lið eru í 3. deild og er komin mjög fjölmenn 4. deild. Liðin í 3. deild eru í heildina frekar jöfn og sterk og deildin er skemmtileg. Það eru því mörg lið sem eiga möguleika á efstu sætunum en öll liðin þurfa líka að berjast fyrir veru sinni í deildinni.

 

Á öldungamótinu sem haldið var í Vestmannaeyjum árið 2011 spilaði kvennalið Skells í 5. deild (af 12 deildum). Háskólastúdentarnir eru of ungir til að spila á öldungamóti og því var það hið gamalreynda lið Skells sem tók þátt. Árangurinn var góður og náði liðið 3. sæti í deildinni.


Meistaraflokkur karla
Ekki var eins mikil gróska hjá meistaraflokki karla á árinu 2011 og veturinn 2010-2011 fór liðið aðeins á öldungamót. Það vantar herslumuninn á að karlarnir taki þátt í blakinu af jafn miklum krafti og kvennalið Skells. Það eru margir sem mæta öðru hvoru á æfingar og hópurinn í heildina er því frekar stór, en það er ekki nógu algengt að ná heilu liði saman á æfingu. 

 

Karlalið Skells keppti í 4. deild (af 5 deildum) á öldungamótinu í Vestmannaeyjum. Liðið náði að halda sér uppi í deildinni sem var markmiðið. Óhætt er að segja að Skellur hafi fengið að spila einn eftirminnilegasta leik mótsins þegar þeir spiluðu á móti stuðboltunum í Massajammi. Massajamm höfðu pantað heila lúðrasveit fyrir leikinn sem birtist við upphaf hans - öllum öðrum að óvörum og hélt uppi miklu fjöri. Áhorfendur flykktust að leiknum sem Skellur vann með glæsibrag.

 

Karlalið Skells var með lið á Piparkökumóti Fylkis í desember 2011 og stóð sig mjög vel þar.

 

Þess má geta að nú er verið að kanna áhuga karlaliða á að stofna 3. deild Íslandsmótsins og hefur karlalið Skells líst yfir áhuga á að taka þátt í slíkri deild ef af verður. Það yrði vonandi til þess að koma mætingu og æfingum karlaliðsins upp á næsta stig.

 

Yngri flokkar Skells
Skellur hélt úti æfingum fyrir krakka frá 1. bekk og upp í 9. bekk veturinn 2010-2011, bæði á Ísafirði og Suðureyri. Fjöldi iðkenda hefur smám saman aukist síðustu 2-3 árin.

 

Skellur sendi lið til keppni í Íslandsmótinu í 4. og 5. flokki. Vormótið og lokamót Íslandsmótsins 2010-2011 var haldið í Mosfellsbæ og sendi Skellur fjögur lið á mótið. Er skemmst frá því að segja að A-lið Skells í 5. flokki varð Íslandsmeistari A-liða í blaki. Þetta er í fyrsta sinn sem Skellur eignast Íslandsmeistara A-liða og gefur að sjálfsögðu góð fyrirheit um framtíð félagsins. Önnur lið stóðu sig líka mjög vel á mótinu og má nefna að B-lið Skells náði í brons í deild B-liða.

 

Í nóvember 2011 fór fyrri hluti Íslandsmótsins fram í Neskaupstað fyrir 4.-5. flokk og sendi Skellur fjögur lið á mótið sem öll eru firna sterk lið með reyndum krökkum. Ferðalagið var langt og dýrt en gekk einstaklega vel og börnin til fyrirmyndar. Tvö af liðunum eru í 2. sæti í sinni deild eftir þessa umferð.

 

Í fyrsta sinn var sent lið í Íslandsmótið í 3. flokki og var fyrri umferðin haldin í Mosfellsbæ í nóvember. Í 3. flokki er spilað venjulegt blak í sex manna liðum og töpuðust leikirnir í þetta sinn, en þó má segja að mótið hafi gengið nokkuð vel hjá okkar krökkum.

 

Veturinn 2011-2012 er starfræktur íþróttaskóli HSV fyrir 1.-4. bekk. Blak er hluti af boltaskóla HSV og sér Skellur um þjálfun krakka í 3. og 4. bekk. Það hefur verið mannað með tveimur þjálfurum sem þó eru í fullri vinnu. Reynslan af boltaskólanum hefur verið nokkuð góð og spennandi fyrir Skell að ná til svo margra krakka á þessum aldri. Betra væri ef hægt væri að manna þetta með þjálfurum sem hafa meiri tíma til að sinna boltaskólanum, en það er ekki einfalt þar sem æfingar eru á miðjum vinnudögum og eru bara í 2-3 vikur í lotu.

 

Önnur mót og viðburðir
Það háir liðum Skells, bæði meistaraflokkum og yngri flokkum hversu langt þarf að sækja í leiki og því er erfitt að hafa raunhæfa æfingaleiki fyrir Íslandsmót og er spilreynslan ekki eins mikil og hjá liðum víða annars staðar á landinu. Á sunnanverðum Vestfjörðum eru margir fullorðnir að æfa blak, bæði á Tálknafirði, Bíldudal, Patreksfirði og Reykhólum. Sökum erfiðara samganga yfir vetrartímann er ekki auðvelt fyrir Skell að spila við þessa nágranna okkar, en þó hefur verið reynt að ná að hittast á haustin eða vorin og haustið 2011 hittust sum þessara liða á Patreksfirði og náðu góðum blakdegi.

 

Í mars árið 2011 voru haldnir blak-olympíuleikar Skells þar sem blakbörn og foreldrar kepptu saman í hinum ýmsu þrautum.

Jólamót Skells, Hurðarskellur, var á sínum stað og þar var bæði keppt í yngri flokkum og meistaraflokkum. Boltaskóli HSV var með á mótinu og athygli vakti hversu góðum tökum margir höfðu náð á krakkablakinu eftir aðeins þriggja vikna æfingar.

Á sumrin grípa blakarar stundum í strandblakið og kepptu nokkrir á stigamótinu sem haldið var á Þingeyri sumarið 2011. Gaman væri að koma upp strandblakaðstöðu í Skutulsfirði, eða a.m.k. útiblakaðstöðu. Slíkt yrði án efa vinsælt meðal Ísfirðinga sem og ferðamanna.

 

Fjáraflanir
Fjáraflanir félagsins voru með hefðbundnu sniði. Yngri flokkarnir seldu ýmsan varning og héldu kökubasara til að fjármagna ferðir félagsins. Félagið tók einnig þátt í fjöruhreinsun og meistaraflokkarnir héldu utan um Kvennahlaup ÍSÍ eins og undanfarin ár.

 

Þörf er á fleiri foreldrum með í skipulagningu ferða og fjáraflana fyrir yngri flokka félagsins. Eins og oft vill verða lendir þetta á höndum of fárra en vonandi tekst að bæta úr þessu á næsta tímabili.

Deila