Fyrstu íþróttakappleikirnir á nýju gólfi í Torfnesi fóru fram laugardaginn 20. janúar. Þá tók Vestri á móti HK B í 1. deild karla og kvenna í blaki og síðan fór fram körfuboltaleikur strax á eftir þar sem Vestri tók á móti ÍA.
Karlarnir riðu á vaðið og áttu hörkuleik á móti ungu og spræku liði HK B. Vestri tapaði fyrstu hrinunni naumlega 23-25, en síðan hrukku Vestra strákarnir í gang og sigruðu þrjár næstu hrinurnar og leikinn þar með 3-1.
Kvennaleikurinn var hörkuleikur þar sem Vestri tapaði tveimur fyrstu hrinunum, en vann tvær þær næstu. Oddahrinan var æsispennandi en HK náði að stela sigrinum að lokum 15-13 og unnu þar með leikinn 3-2.
Liðin í 2. flokki hjá sömu félögum spiluðu svo á sunnudeginum. HK fór með sigur af hólmi í báðum leikjunum, 3-1 hjá strákunum og 3-0 hjá stelpunum. Báðir leikirnir voru skemmtilegir og spennandi á að horfa, og gaman að sjá unga og efnilega leikmenn hjá báðum liðum.
Deila