Fréttir

Skellur heim með þrjá bikara af fyrsta Íslandsmótinu sínu!

Blak | 19.04.2010

Krakkarnir í blakfélaginu Skelli tóku þátt í seinni hluta Íslandsmótsins í blaki yngri flokka um helgina. Skellur sendu fjögur lið; þrjú í 5. flokki og eitt lið í 4. flokki og er þetta fyrsta heila Íslandsmótið sem Skellur tekur þátt í. Í krakkablaki er spilað mismunandi stig af blaki eftir getu og á Íslandsmótinu er spilað í mismunandi deildum eftir því hvaða stig krakkarnir spila. Hér fyrir neðan er sagt frá hverju liði fyrir sig í örfáum orðum:

 

Skellur 1 í 5. flokki: Liðið spilaði 3. stig á mótinu í haust og 4. stig á þessu móti. Óhætt er að segja að þessir krakkar séu farnir að spila fallegt blak. Í þeirra deild voru 12 lið og spilað í tveimur riðlum. Á mótinu í haust unnu þau alla leiki í sínum riðli og töpuðu naumlega úrslitaleik 2-1 við Aftureldingu sem var efsta liðið í hinum riðlinum. Á þessu móti fór riðlakeppnin á sama hátt, Skellur og Afturelding unnu hvort sinn riðilinn og aftur var leikinn úrslitaleikur í lok mótsins. Nú mættu krakkarnir í Skelli gríðarlega einbeitt til leiks og aldrei var spurning hvoru megin sigurinn lenti. Leikurinn vannst 2-0 og Skellur hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum í sinni deild. Það vakti mikla athygli að félagið skyldi ná gulli á fyrsta Íslandsmótinu sínu.  Í liðinu voru: Bjarni Pétur, Auður Líf, Ívar Tumi, Birkir og Daði. Fjögur þeirra eru í raun í 6. flokki og eru því að spila upp fyrir sig. Þetta lið mun því spila í deild með A-liðum á næsta ári enda hafa þau sýnt og sannað að þau eiga fullt erindi í það.

Skellur 2 í 5. flokki: Liðið spilaði 3. stig á mótinu í haust og 4. stig á þessu móti og voru því í sömu deild og Skellur 1, en ekki í sama riðli. Í liðinu eru krakkar sem hefur farið mikið fram í vetur og þau eru á mörkum þess að ná 4. stiginu vel, sem er í raun venjulegt blak með smá takmörkunum á uppgjöfum. Þau voru í þriðja sæti af sex liðum í sínum riðli, unnu þrjá leiki og töpuðu tveimur. Þau spiluðu því leik um 5. sætið í deildinni en töpuðu honum. Reyndar vantaði þá sterkan leikmann í liðið sem var svo óheppinn að fá gubbupest. Í liðinu voru: Ágúst, Kjartan Óli, Ólína, Hrefna og Benedikt (Bensi).

 

Skellur C í 5. flokki:  Liðið var ekki skráð á mótið í haust og spilaði því sem gestalið á þessu móti. Þau spiluðu 3. stig og stóðu sig ágætlega. Þau unnu þrjár hrinur og töpuðu mörgum naumlega. Þriðja stigið er mjög skemmtilegt þar sem liðin verða að leika þrjár snertingar en annar boltinn er alltaf gripið. Oft verða langar lotur og mikil barátta. Í liðinu voru: Ingibjörg, Birta Rós, Birta Dögg, Ólöf og Kolfinna.

 

Skellur 2 í 4. flokki: Liðið spilaði 3. stig í haust og 4. stig á þessu móti og voru þá skráð í deild með B-liðum. Á mótinu í haust voru skráð þrjú lið í þessa deild og lenti Skellur í 2. sæti á því móti. Á þessu móti voru aðeins skráð 2. lið í deildina þar sem Sindri á Hornafirði gat ekki mætt vegna eldgoss. Því var ákveðið að blanda saman deildum og spilaði Skellur því við öll A-liðin líka sem spila 5. stig. Ekki vannst leikur á þessu móti hjá stelpunum en það var góð reynsla að spila við lið sem eru búin að æfa lengur og eru komin lengra í blaki. En árangurinn á mótinu í haust nægði til að fleyta þeim upp fyrir hitt liðið í deildinni á Íslandsmótinu í heildina og því fengu stelpurnar gullið og voru að sjálfsögðu kátar með það!  Í liðinu voru: Klaudía, Viktoría, Gerður Elsabet (Elsa), Svanhildur og Dórothea.

 

Rúsínan í pylsuendanum var að Skellur var valið prúðasta félagið á mótinu og fengu bikar fyrir það. Bikarinn var veittur fyrir framkomu jafnt innan vallar sem utan og umgengni um skólann þar sem gist var. Bæði krakkar, þjálfarar og fararstjórar voru sérlega ánægð með þessa viðurkenningu.


Hægt er að skoða úrslit einstakra leikja á http://krakkablak.bli.is/ eða með því að smella hér
Ferðasagan og myndir úr ferðinni koma svo fljótlega inn á heimasíðuna

Deila