Fréttir

Stórir og smáir sigrar á Íslandsmóti

Blak | 11.11.2010

24 krakka hópur fór frá Skelli á fyrri hluta Íslandsmótsins sem haldið var á Akureyri helgina 6.-7. nóvember. Farið var með rútu og víst var leiðin norður löng en bíómyndir styttu ferðina. Hópurinn gisti í skólastofum í Brekkuskóla og klukkan 8 á laugardagsmorgni byrjuðu fyrstu leikir. Í stuttu máli sagt stóðu krakkarnir sig frábærlega á mótinu öll sem eitt. Öll liðin 6 unnu einhverja leiki og eitt þeirra er í öðru sæti í sinni deild eftir mótið og annað í þriðja sæti. Hér að neðan verður farið stuttlega yfir hvert lið, en úrslit leikja og stöðu í deildum má sjá á síðunni www.krakkablak.bli.is.

 

Skellur C í 5. flokki: Í liðinu voru þær Ólína, Þórunn Birna, Katla og Ingibjörg, allar frá Suðureyri og spiluðu þær 3. stig. Þrjár af stelpunum eru í 3. og 4. bekk og eru því að spila upp fyrir sig um flokk. Liðið vakti mikla athygli fyrir góða tækni og baráttu þrátt fyrir ungan aldur. Liðið er nú í 6. sæti af 10 liðum í þessari deild.

 

Skellur 3 í 5. flokki: Í liðinu voru Kolfinna Rós, Kolfinna Íris, Ólöf, Bensi og Birta Rós. Þau spiluðu 3. stig og spiluðu marga æsispennandi leiki  Þau unnu 4 leiki af 5, þar af unnust 3 leikir í oddahrinu. Þetta eru því krakkar með stáltaugar. Úrslitaleikinn um 3. sætið í deildinni unnu þau einmitt í oddahrinu, en fyrstu hrinuna í þeim leik tóku þau 32-30. Venjulega nær hrina upp í 25 stig en það þarf að muna 2 stigum og er spilað þangað til það næst.


Skellur 2 í 5. flokki: Í liðinu voru Ísak Andri, Kjartan Óli, Dísa og Hrefna. Þau spiluðu 4. stig sem er að flestu leiti eins og venjulegt blak. Það þarf því mikla tækni til að geta spilað 4. stig og það var gaman að sjá hvað þau eru að ná góðum tökum á þessu. Liðið vann 2 leiki af 6, og flestir leikjanna voru jafnir og spennandi. Liðið er í 6. sæti í sinni deild eftir þetta mót

 

Skellur 1 í 5. flokki: Í liðinu voru Birkir, Ívar Tumi, Bjarni Pétur og Auður Líf og spiluðu þau 4. stig. Þetta eru krakkar sem hafa spilað saman í 3 ár og eru orðin að einstaklega samhentu liði sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna. Þau unnu 5 af 6 leikjum sínum og þar af fóru 3 í oddahrinu. Eini tapleikurinn var gegn spræku liði Aftureldingar, en til gamans má geta að þessi tvö lið börðust um 1. sætið í sinni deild í fyrra og þá hafði Skellur betur með því að vinna seinna Íslandsmótið.

 

Skellur 2 í 4. flokki: Í liðinu voru Elsa og Bergrín og spiluðu 5. flokks krakkar með þeim. Þau spiluðu 4. stig. Dóróthea átti einnig að vera í liðinu en því miður var hún veik og komst ekki í ferðina. Liðið vann 1 leik af fjórum og átti mjög góða spretti. Það endaði í 6. sæti af 10 liðum í deildinni.

 

Skellur í 4. flokki: Í liðinu voru Viktoría, Eva Karen, Lena og Svanhildur. Þær náðu mjög góðu móti og unnu 3 leiki af 5. Liðið endaði samt í 7. sæti af 10 liðum en samt með jafn mörg stig og liðið í 4. sæti. Þær voru bara óheppnar með það hvernig riðlarnir spiluðust. Það verður gaman að sjá hvernig 4. flokks liðunum okkar fer fram í vetur undir styrkri stjórn Jamie þjálfara.

Á laugardeginum var farið í sund eftir mótið og síðan var boðið upp á diskótek um kvöldið. Eftir hádegið á sunnudeginum var keyrt heim á leið við vetraraðstæður og var komið til Ísafjarðar um 10-leytið um kvöldið. Sjálfsagt hafa einhverjir verið þreyttir í skólanum á mánudaginn, en vonandi eru allir sælir eftir ferðina. Það á a.m.k. við um þjálfara og fararstjóra.

 

Við hlökkum öll til seinna mótsins sem verður í Mosfellsbæ dagana 1.-3. apríl og vonandi verða allir duglegir að æfa fram að því.
Myndir frá mótinu hafa verið settar inn myndasíðuna.

Deila