Blak | 15.11.2011
Um síðustu helgi (11.-13. nóv) var fyrri hluti Íslandsmótsins í 4. og 5. flokki haldinn í Neskaupstað. Skellur sendi fjögur lið á mótið og var flogið til Reykjavíkur, þaðan til Egilsstaða og síðan tókum við rútu til Neskaupstaðar. Við vorum heppin með veður og ferðin gekk eins og í sögu.
Öll fjögur liðin sem við sendum á mótið að þessu sinni eru feikna sterk. Þetta eru krakkar sem flest eru búin að æfa í nokkur ár og hafa náð góðum tökum á blakinu. Í stuttu máli þá er liðið okkar í 4. flokki í þriðja sæti meðal A-liða drengja eftir þetta mót, Skellur 1 í 5. flokki eru í 2. sæti meðal A-liða drengja og Skellur 3 í 5. flokki í 4. sæti í sömu deild. Liðið Skellur C er í 2. sæti meðal C-liða drengja. Hér að neðan er nánari umfjöllun um mótið.
Öll lið Skells voru að þessu sinni skráð sem drengjalið. Reglurnar eru nefnilega þær að ef tveir eða fleiri strákar eru í liði skal skrá það sem drengjalið. Við höfum skipt niður í lið óháð kyni því á þessum aldri er ekki sérstakur munur á getur stráka og stelpna í blaki, og voru tveir til þrír strákar í hverju liði.
Lið Skells í 4. flokki var skipað Telmu Rut og Kjartani Óla sem eru þau einu í blakinu hjá okkur sem eru á þeim aldri að vera í 4. flokki. Liðsfélagar úr Skelli 1 í 5. flokki spiluðu með þeim, þau Birkir, Bjarni Pétur, Auður og Ívar Tumi. Liðið spilaði í deild A-liða drengja, en A-lið og B-lið voru sameinuð í þessari deild. Fyrsti leikurinn var erfiður því hann var á móti feiknasterku A-liði HK sem var eins og af annari plánetu en önnur lið þarna. Hvert stig sem vannst í þeim leik var í raun sigur. Síðan vann Skellur B-lið HK og Þróttar Nes. Þar sýndu okkar krakkar fína takta, börðust vel og áttu sterkar sóknir inn á milli. Síðasti leikurinn var á móti A-liði Þróttar Nes sem eru allt strákar á eldra ári í 4. flokki. Grímur, pabbi Hörpu þjálfar það lið og má því segja að Birkir hafi verið að spila á móti afa sínum og Harpa á móti pabba sínum. Þessi leikur varð besti leikur beggja liða á mótinu. Skellur sýndi mikla baráttu og útsjónarsemi og náði að ógna sterku liði Þróttar verulega þótt leikurinn tapaðist 2-0.
Liðið Skellur 1 í 5. flokki var skipað þeim Bjarna Pétri, Birki, Ívari Tuma og Auði sem hafa spilað saman blak frá því í 2. bekk. Þetta lið hefur orðið Íslandsmeistari tvisvar, fyrst í deild C-liða og í fyrra í deild A-liða ásamt Kjartani Óla - í bæði skiptin eftir „blóðuga“ baráttu við A-lið Aftureldingar. Að þessu sinni vann liðið alla sína leiki nokkuð auðveldlega, nema gegn Aftureldingu þar sem oddahrinan tapaðist. Leikurinn á móti Aftureldingu var annar leikur liðsins á mótinu og einkenndist hann af mikilli baráttu en of mörgum mistökum hjá okkar mönnum - sennilega eitthvað stress í gangi. Í síðustu tveimur leikjum liðsins á mótinu smullu þau vel saman og náðu sókninni á strik, og þegar þessir krakkar eru í þeim ham sem þau voru þá, er ekkert lið á þeirra aldri á landinu sem stenst þeim snúning. Það verður því tekið á því í vor þegar enn eitt uppgjörið við sterkt og baráttuglatt lið Aftureldingar mun eiga sér stað!
Liðið Skellur 3 í 5. flokki var skipað þeim Hrefnu, Ágústi og Ólínu frá Suðureyri, og Birtu Rós og Bensa frá Ísafirði. Einnig spilaði Katla einn leik með liðinu. Liðið hefði í raun átt að spila í deild B-liða, en hún var ekki til staðar í drengjaflokki að þessu sinni. Þá var ekkert annað að gera en að spila við A-liðin og krakkarnir sýndu að þar eiga þau heima. Þau náðu mörgum góðum leikjum og unnu spræka stráka í A-liði Stjörnunnar. Leikmenn liðsins eru tæknilega góðir og hafa náð góðum tökum á smassi og uppgjöfum, en stundum vantar hreyfanleika og verður unnið með það á æfingum hjá þeim í vetur.
Liðið Skellur C í 5. flokki var skipað þeim Krzysztof, Kötlu, Ingibjörgu og Karólínu frá Suðureyri og Hafsteini frá Ísafirði. Þau spiluðu 3. stig en í því stigi þarf liðið að snerta boltann þrisvar áður en hann fer yfir netið og annar bolti er gripinn. Þetta lið er mjög sterkt í 3. stigi og þau unnu alla sína leiki í riðlinum á laugardeginum. Þau kepptu til úrslita við Lið Dímons á sunnudagsmorgni en sá leikur tapaðist 2-0. Á næsta móti munu þau spila 4. stig sem er venjulegt blak, og þá er bara að vinna Dímon líka!
Farið var í sund í Neskaupstað bæði á föstudeginum og laugardeginum og var stóra rennibrautin þar mikið notuð. Á laugardagskvöldinu var diskótek í skólanum. Eitt af því skemmtilega við þessi mót er að öll aðkomulið gista saman í skólum og krakkarnir kynnast krökkum í hinum liðunum. Við vonumst til þess að fá svona mót hingað til Ísafjarðar einhvern tímann - vonandi strax næsta haust.
Deila