Blak | 13.10.2009
Vestfjarðamótið í blaki var haldið á laugardaginn þrátt fyrir vonskuveður. Veðrið riðlaði mótinu töluvert, en keppendur frá Bíldudal, Tálknafirði, Patreksfirði og Þingeyri komust ekki á mótið. Því voru það einungis keppendur frá Ísafirði og Suðureyri sem kepptu í blaki fullorðinna og barna. Þrátt fyrir það tókst mótið vel og voru keppendur um 40-50 talsins. Í blaki fullorðinna kepptu þrjú Skellslið um titilinn í liðum sem voru blönduð konum og körlum. Keppnin var jöfn og spennandi, en liðið SkellurZ sigraði mótið. Í krakkablaki gerðu Súgfirðingar góða ferð og sigruðu í 2. stigi og 4. stigi og urðu í öðru sæti í 3. stigi. Skellur-gulir frá Ísafirði sigraði 3. stigið. Allir fengu glaðning að móti loknu. Stjórn Blakfélagsins Skells vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem lögðu hönd á plóginn við mótið. Sérstaklega er foreldrum og börnum sem sáu um veitingasöluna þakkað fyrir vel unnin störf. Segja má að þetta mót hafi verið góð upphitun fyrir allt það sem framundan er hjá blökurum í Skelli:
Karlalið Skells tekur þátt í Stjörnumótinu sem haldið verður í Garðabæ laugardaginn 23. október.
Helgina á eftir verða fyrstu leikir vetursins í 3. deild kvenna í Mosfellsbæ þar sem kvennalið Skells mætir til leiks. Liðið hefur styrkst töluvert í vetur með tilkomu tveggja nýrra leikmanna, þeirra Kolbrúnar og Jamie, og verður spennandi að sjá hvernig gengur í 3. deildinni í vetur.
Íslandsmótið í krakkablaki í 4. og 5. flokki verður haldið í Neskaupstað helgina 7.-8. nóvember og stefnir í að Skellur verði með 4 lið þar.
Helgina þar á eftir verður Íslandsmótið í blaki hjá 2. og 3. flokki haldið í Neskaupstað og er verið að reyna að setja saman lið úr Höfrungi og Skelli til að taka þátt í því.