Fréttir

Frábært fjallahjólamót!

Hjólreiðar | 14.08.2023
Vestramaðurinn Aron Svanbjörnsson hafnaði í þriðja sæti í Rafhjólaflokki á eftir þeim Helga Berg Friðþjófssyni og sigurvegaranum Karli Lilliendahl Ragnarssyni.
Vestramaðurinn Aron Svanbjörnsson hafnaði í þriðja sæti í Rafhjólaflokki á eftir þeim Helga Berg Friðþjófssyni og sigurvegaranum Karli Lilliendahl Ragnarssyni.
1 af 2

Enduro- og Ungdúrómót Hjólreiðadeildar Vestra fóru fram í blíðskaparveðri um helgina á Ísafirði. Mótið var tvískipt þar sem fullorðnir og ungmenni kepptu á föstudag og laugardag en börnin fengu að njóta sín á sunnudaginn.

Á Enduromótinu var keppt í A-flokki, Masters-flokki, B-flokki, Junior, U17 og Rafhjólaflokki.

Í Rafhjólaflokki karla blandaði Vestramaðurinn Aron Svanbjörnsson sér í verðlaunabaráttuna og endaði í þriðja sæti á eftir þeim Helga Berg Friðþjófssyni (BFH) og sigurvegaranum Karli Lilliendahl Ragnarssyni en aðeins munaði tæpum þremur sekúndum á þeim.

Í A-flokki sigraði Jónas Stefánsson, Hjólreiðafélagi Akureyrar, eftir harða keppni við Tindsmanninn Börk Smára Kristinsson, í þriðja sæti varð svo Grétar Örn Guðmundsson, BFH.

Í A-flokki kvenna sigraði Katarína Eik Sigurjónsdóttir, BFH en í öðru sæti var Tindskonan Dagbjört Ásta Jónsdóttir og í því þriðja félagi hennar úr Tindi Rakel Logadóttir.

Önnur úrslit Enduro Ísafjarðar má finna á vef Timatöku.net.

Á sunnudeginum hélt veðurblíðan áfram og stemmingin var hreint út sagt frábær á Ungdúrómótinu. Keppt var í U11, U13, U15 og U17 flokkum. Keppendur stóðu sig allir frábærlega og gleðin skein af hverju andliti. Boðið var upp á tvær vegalengdir fór mótið fram á Seljalandsdal og endaði í Hjólagarði Vestra þar sem skellt var í góða grillveislu.

Svona viðburð er ekki hægt að halda án stuðnings frá styrktaraðilum og velunnurum. Hjólreiðadeild Vestra vill koma þökkum á framfæri til eftirfarandi fyrirtækja: Jakob Valgeir ehf., Hraðfrystihúsið Gunnvör, Dokkan, Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar, The Fjord Hub, Gústi Productions, Fjallakofinn, Púkann, Avis á Ísafirði, Borea Adventures, Viðburðastofa Vestfjarða, Saltverk og Sætt og salts.

Deila