Á sunnudaginn fór fram Ungduro Ísafjörður, fyrsta barna- og unglingamót Hjólreiðadeildar Vestra af þessari tegund. Ungduro er barna- og unglingaútgáfa af enduro keppnisformi í fjallahjólreiðum þar sem allir keppendur hjóla langa leið en aðeins er keppt á merktum sérleiðum sem aðalega eru niður í móti. Keppendur stimpla sig inn í byrjun hverrar sérleiðar og svo út í lok hennar. Samanlagður tími hvers keppanda á sérleiðum gildir til úrslita. Milli sérleiða er keppnisskapið skrúfað niður og áhersla lögð á að njóta þess að hjóla í góðum félagsskap að næstu sérleið.
Mótið á Ísafirði er þriðja ungduro mótið sem haldið er á Íslandi og það fyrsta fyrir vestan. Undanfarin ár hafa slíkar keppnir verið haldnar í fullorðinsflokki á Ísafirði og fer næsta keppni fram 15.ágúst.
Úrhellisrigning og rok var á Vestfjörðum dagana fyrir keppni. Þessar aðstæður höfðu það meðal annars í för með sér að aflýsa þurfti Hlaupahátíð og Vesturgötuhjólreiðakeppninni vegna veðurs og mögulegs grjóthruns en Hlaupahátíðin fer fram að ári dagana 15.-18. júlí, 2021. Veðurspá fyrir sunnudag var þó góð og því var ákveðið að halda áætlun hvað ungduro mótið varðar. Spáin gekk svo eftir og var sól og blíða á meðan á keppni stóð og var sérstaklega ánægjulegt að fjöldi keppenda af suðvesturhorninu létu veðrið ekki á sig fá og mættu til leiks.
Mikil uppbygging hefur átt sér stað á hjólaleiðum á Ísafirði undanfarin ár og er svæðið orðið að sannkallaðri fjallahjólaparadís. Fjallahjólreiðar eru frábært fjölskyldusport sem er í miklum vexti þá ekki síst hjá yngstu kynslóðinni.
Mótið tókst vel í alla staði og má telja víst að mótahald af þessu tagi verði fastur liður í starfsemi Hjólreiðadeildar Vestra í framtíðinni.
Björgvin Hilmarsson ljósmyndari var á staðnum og smellti af glæsilegum myndum sem má skoða vefsíðu Björgvins.
Upplýsingar um sigurvegara í hverjum flokki og tíma má nálgast á vefnum timataka.net.
Deila