Fréttir

BÍ/Bol - Grótta

Knattspyrna | 08.07.2009 Glæsimark Gunnlaugs dugði ekki til sigurs

Frábært mark Gunnlaugs Jónassonar dugði sameinað knattspyrnuliði Ísafjarðar og Bolungarvík ekki til sigurs þegar liðið gerði jafntefli við stjörnuprýtt lið Gróttu á Skeiðisvelli í Bolungarvík í gær. Leikurinn var hinn ágætasta skemmtun, enda mikið um dramatík, sérstaklega í seinni hálfleik.

Leikurinn byrjaði rólega og virtust bæði lið vera að þreifa fyrir sér án þess að taka mikla áhættu. Leikurinn var jafn og bæði lið spiluðu ágætlega á milli sín, en lítið var um færi og ekkert mark skorað. Staðan í hálfleik 0-0.

Það lifnaði heldur betur yfir leiknum í seinni hálfleik en heimamenn mættu dýrvitlausir til leiks og ætluðu sér greinilega öll stigin þrjú. Eftir nokkurra mínútna leik barst boltinn til Gunnlaugs á hægri kantinum. Hann setti stefnuna beint á markið og lék inn í teiginn, valhoppandi framhjá varnarmönnum Gróttu áður hann lét vaða á markið með vinstri fæti. Boltinn sveif beint upp í markvinkilinn, framhjá fyrrum landsliðsmarkverðinum Kristjáni Finnbogasyni. Glæsilegt mark.
Fögnuður heimamanna stóð stutt. Aðeins nokkrum mínútum síðar barst boltinn inn í vítateig BÍ/Bolungarvík þar sem sóknarmaður Gróttu féll með tilþrifum. Dómarinn hikaði ekki við að dæma vítaspyrnu þrátt fyrir mótmæli heimamanna og hlaut hann mikla gagnrýni hjá áhorfendum sem voru ekki sáttir við dómgæsluna. Grótta skoraði úr vítinu og því staðan jöfn, 1-1.

Vestfirðingar létu ekki deigan síga og börðust eins og ljón, en Grótta átti ekkert í baráttumikla heimamenn. Um miðjan síðari hálfleik fengu BÍ/Bolungarvík sannkallað dauðafæri. Eftir þunga sókn barst boltinn að Óttari Bjarnasyni sem var einn og óvaldaður við mark Gróttu en markvörður Gróttu lá þá á jörðinni. Óttar náði þá, á einhvern undraverðan hátt, að skjóta boltanum í stöngina og út, en auðveldara hefði sennilega verið að koma honum í markið.

Heimamenn gáfust aldrei upp og börðust fram á síðustu mínútu, það dugði þó ekki til sigurs og endaði leikurinn með jafntefli, 1-1. Maður leiksins: Gunnlaugur Jónasson. Frábært mark og einkennandi fyrir baráttu heimamanna í leiknum.

Eftir leikinn er BÍ/Bolungarvík í fimmta sæti 2. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Liðið hefur 14 stig að níu umferðum loknum en liðið hefur gert fimm jafntefli á leiktíðinni. Næsti leikur liðsins er á laugardag þegar BÍ/Bolungarvík heldur suður í Hveragerði þar sem það mæti liði Hamars á Grýluvelli.

Deila