Fréttir

Emil Pálsson er íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2009!

Knattspyrna | 18.02.2010 Okkar maður, Emil Pálsson, leikmaður 2. flokks og meistaraflokks BÍ88 var valinn íþróttamaður Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2009. Skyldi engan undra. Þrátt fyrir ungan aldur er Emil kominn í fremstu röð ísfirskra knattspyrnumanna. Haustið 2008 var hann enn og aftur valinn í U-16 ára landslið Íslands og var byrjunarliðsmaður hjá meistaraflokki BÍ88 um vorið 2009. Hann lék flesta leiki meistaraflokks síðasta sumar, einungis 15 ára gamall. Síðasta sumar hlotnaðist honum sá heiður að vera valinn í lið Íslands í landsliði 17 ára og yngri og spilaði með því á Norðurlandamótinu í ágúst. Þar var hann fastamaður í byrjunarliði Íslenska liðsins og skoraði tvö mörk í þremur leikjum. Þá var hann valinn í lið Íslands sem keppti í undankeppni Evrópumóts U-17-landsliða í september síðasta árs. Hlaut hann mikið lof þjálfara sinna fyrir frammistöðuna í báðum keppnum. Í haust var hann svo aftur valinn í U-17 ára landslið Íslands og hefur stundað æfingar með því í vetur við góðan orðstír enda hefur ekkert breyst: hann er enn í hópi okkar efnilegustu knattspyrnumanna um þessar mundir.
Þessi árangur verður ekki til upp úr þurru. Emil hefur alla tíð lagt gríðarlega vinnu í æfingar og gefur sig allan í leiki. Hann æfir allt að sex sinnum í viku auk helgaræfinga með landsliði U-17 sem eru á þriggja vikna fresti. Hann hefur því verið sjálfum sér, aðstandendum og félagi til sóma innan sem utan vallar og er óvéfengjanlega sá leikmaður sem yngri knattspyrnumenn á Vestfjörðum líta hvað mest upp til. Sást það best í knattspyrnuskóla BÍ88 í sumar, en þá ætlaði allt um koll að keyra þegar hann leiðbeindi krökkunum eina dagsstund og vakti síst minni athygli hjá krökkunum en heimsókn annarra, þekktra knattspyrnumanna.
Stjórn BÍ88 óskar Emil innilega til hamingju með árangurinn.
Deila