Fréttir

8. flokkur stúlkna stóð sig vel á Ásvöllum

Körfubolti | 01.03.2016
8. flokkur stúlkna ásamt þjálfara sínum, Nökkva Harðarsyni.
8. flokkur stúlkna ásamt þjálfara sínum, Nökkva Harðarsyni.

Fjórða umferð hjá 8. flokki kvenna í Íslandsmótinu í körfubolta fór fram helgina 26.-27. febrúar síðastliðinn. Okkar stúlkur eru í C-riðli sem var leikinn á Ásvöllum í Hafnarfirði, heimavelli Hauka. Fyrsti leikurinn var á móti KR sem byrjaði af miklum krafti og skoruðu KR-stúlkur fyrstu 9 stig leiksins en þá tóku KFÍ-stelpurnar við sér og var staðan 11-4 fyrir KR eftir fyrsta leikhluta. Okkar stelpur börðust eins og ljón í öðrum leikhluta og náðu að minnka muninn í 5 stig, 15-10. Í 3. leikhluta byrjaði KFÍ (Vestri) vel og skoraði 8 af fyrstu 10 stigum fjórðungsins og staðan þá orðin 18-17 KFÍ-stúlkum í vil. En þá tóku KR-stúlkur við sér og náðu að klára leikhlutann á þremur körfum og staðan 23-18 fyrir KR. Í fjórða og seinasta leikhlutanum tókst KFÍ-stúlkum ekki minnka þennan mun og urðu lokatölur 22-28 fyrir KR. Þrátt fyrir tap var þetta flottur og skemmtilegur körfuboltaleikur í alla staði og vel spilaður hjá okkar stelpum.

Annar leikurinn var á móti sterku liði Hauka og byrjuðu bæði lið á að spila frábæra vörn og var lítið skorað í fyrsta leikhluta. Staðan að honum loknum var 1-0 fyrir KFÍ (Vestra) en eftir að hafa eytt svona mikilli orku í vörnina áttu KFÍ-stúlkur ekki mikið eftir í næstu þrjá leikhluta og endaði leikurinn með öruggum sigri Hauka-stúlkna sem skoruðu 22 stig á mót 5 stigum og ekki hægt annað en að tala um sanngjarnan sigur heimamanna.

Þriðji og seinasti leikur mótsins var gegn Vali og voru KFÍ-stúlkur staðráðnar í að gera betur en í hinum leikjum mótsins og mættu ákveðnar til leiks. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 8-2 fyrir KFÍ en þá misstu þær aðeins einbeitinguna og staðan að loknum öðrum leikhluta 14-10 fyrir KFÍ. Eftir góða hálfleiksræðu hjá Nökkva Harðarsyni, þjálfara liðsins, hrökk allt í gang og var síðan um algjöra einstefnu KFÍ-liðsins að ræða þar sem liðið vann seinni hálfleikinn 20-2. Lauk leiknum með öruggum sigri KFÍ (Vestra), 34-12, og sýndu stelpurnar þarna hvað í þeim býr. Margar þeirra byrjuðu fyrst að æfa í vetur og hafa tekið miklum framförum frá síðasta móti og ljóst að þarna eru efnilegar stelpur sem verður spennandi að fylgjast með í framtíðinni.

Deila