Fréttir

Æfingatafla Vestra tilbúin

Körfubolti | 31.08.2016

Æfingatafla Körfuknattleiksdeildar Vestra fyrir veturinn 2016-2017 er nú tilbúin og hefjast æfingar samkvæmt henni á morgun, fimmtudaginn 1. september. Flestar æfingar félagsins fara fram í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði en einnig er æft í íþróttahúsinu í Bolungarvík í samstarfi við UMFB auk þess sem yngstu iðkendurnir æfa á Austurvegi á Ísafirði. Einnig er verið að skoða möguleikann á því að bjóða upp á æfingar á Þingeyri og Suðureyri í vetur en slíkar æfingar voru í boði á Suðureyri eftir áramót og mæltust vel fyrir.

Þjálfarateymi deildarinnar er afar vel mannað í ár. Yngvi Páll Gunnlaugsson er nýráðinn yfirþjálfari Kkd Vestra og er hann fluttur vestur með fjölskyldu sína. Hann þjálfar meistaraflokk karla auk þess sem hann stýrir tveimur yngri flokkum og hefur yfirumsjón með starfi yngri flokkanna. Aðrir aðalþjálfarar vetrarins eru: Birgir Örn Birgisson, Stefanía Ásmundsdóttir, Gunnlaugur Gunnlaugsson og Nökkvi Harðarson. Auk þeirra munu ýmsir aðstoðarþjálfarar leggja félaginu lið en í mörg horn verður að líta í vetur þar sem iðkendafjöldinn fer stöðugt vaxandi og fleiri æfingahópar verða skráðir í Íslandsmót í vetur en verið hefur um langt skeið.

Hér er hægt að nálgast æfingatöflu Kkd Vestra 2016-2017.

Deila