Æfingatafla KFÍ veturinn 2015-2016 er nú tilbúin en alls er æft í 11 flokkum í vetur, allt frá meistaraflokki karla til barna á leikskólaaldri í Krílakörfunni og Íþróttaskóla Árna Heiðars. Æfingar allra flokka hefjast samkvæmt æfingatöflu næstkomandi mánudag, 31. ágúst. Æft er í þremur íþróttahúsum í vetur líkt og fyrri ár, á Torfnesi og Austurvegi á Ísafirði og í Bolungarvík en þær æfingar eru í góðu samstarfi við UMFB og bæjaryfirvöld.
Valinn þjálfari er í hverju rúmi með þau Birgi Örn Birgisson og Stefaníu Ásmundsdóttur í broddi fylkingar. Gunnlaugur Gunnlaugsson Jr., leikmaður meistaraflokks karla, hefur tekið að sér verkefnastjórn fyrir barna- og unglingaráð KFÍ auk þjálfunar og mun hann vera þjálfurum og ráðinu innan handar með ýmislegt sem lýtur að daglegu starfi yngri flokka félagsins.
Körfuboltadagur KFÍ verður haldinn að viku liðinni, laugardaginn 5. september milli 11-13. Þar verður mikið fjör og börnum á öllum aldri boðið að koma og kynna sér körfuna og æfingatíma hinna ýmsu flokka. Farið verður í ýmiskonar leiki og hollar veitingar verða á boðstólum.
Deila