Fréttir

Aldrei fleiri á Boltaskólamóti

Körfubolti | 23.11.2015
Fjölmenni var á mótinu og margir foreldrar fylgdust áhugasamir með.
Fjölmenni var á mótinu og margir foreldrar fylgdust áhugasamir með.
1 af 3

Um eða yfir sjötíu börn tóku þátt í Boltaskólamóti KFÍ og HSV sem fram fór á Torfnesi á laugardag. Mótið markaði lok fyrsta af þremur körfuboltatímabilum í íþróttaskóla HSV en mótið var opið öll börnum í 1.-4. bekk. Sjaldan hafa fleiri sótt viðburð ætluðum þessum aldurshópi á vegum KFÍ.

 

Það voru þjálfarar yngri flokka félagsins sem skipulögðu daginn í samstarfi við barna- og unglingaráð og fengu til liðs við sig nokkra félaga úr meistaraflokki karla svo allt færi vel fram. Börnin fóru í ýmsa leiki og spiluðu 3 á 3 á milli þess sem þau stukku í pásur og gæddu sér á ferskum ávöxtum. Allir voru síðan eystir út með ís og endurskinsmerkjum í lok móts. Samkaup, Íslandsbanki og Umboðsverslun Hafsteins fá bestu þakkir fyrir stuðninginn við daginn.

 

Sérstaklega ánægjulegt var hversu vel foreldrar sóttu mótið og fylgdumst með af áhuga allan tímann. Þökkum við þeim kærlega fyrir komuna. Verið er að uppfæra æfingatöflu félagsins til að koma betur til móts við yngri flokka félagsins og verður hún aðgengileg hér á síðunum síðar í dag. Við hvetjum áhugasama til að kynna sér töfluna og kanna hvort þar er ekki eitthvað í boði sem hentar yngstu kynslóðinni á heimilinu.

Deila