Stelpurnar í 8. flokki gerðu góða ferð suður í Garðabæ um liðna helgi þar sem þær ött kappi við heimastúlkur í Stjörnunni auk Ármenninga og Snæfell í B-riðli Íslandsmótsins. Eins og lesendur síðunnar muna ef til vill munaði engu að stelpurnar kæmust upp úr B-riðli í síðustu umferð en þá varð þriggja stiga karfa á lokasekúndum þeim að falli. Skemmst er frá því að segja að nú flugu stelpurnar upp í A-riðil með glæsibrag!
Allir þrír leikir riðilsins fóru fram sunnudaginn 13. nóvember. Fyrst mættu stelpurnar Ármanni í jöfnum og spennandi leik þar sem fremur lítið var skorað en stelpurnar tryggðu sér 2 stiga sigur 26-24. Næstar í röðinni voru heimastúlkur í Stjörnunni. Sá leikur var líka jafn en mun meira skorað en í þeim fyrri en Vestra stelpur tryggðu sér 5 stiga sigur 43-38. Lokaleikurinn var svo gegn Snæefelli. Sigurinn í þeim leik var aldrei í hættu og Vestra stelpur unnu hann nokkuð létt 51-35.
Með þessum góða árangri sýndu stelpurnar enn á ný að þær eru meðal 6 til 7 bestu liða landsins í þessum aldursflokki. Næsta umferð fer fram í lok janúar svo stelpurnar hafa nægan tíma til að undirbúa sig fyrir gríðarlega sterkan A-riðil þar sem þær mæta Njarðvík, Grindavík, Keflavík og sameiginlegu liði Tindastóls og Þórs Akureyri.
Áfram Vestri!
Deila