Kvennalið KFÍ tapaði baráttuleik gegn Stjörnunni dag, sunnudaginn 26. október, 69-79. Stjörnukonur tefla fram sterku liði og hafa verið á miklu flugi í upphafi keppnistímabilsinsog höfðu unnið báða leiki sína fram að þessu með 20 stiga mun. KFÍ stelpur áttu í fullu tréi við Stjörnuna í leiknum og sýndu baráttu og dugnað sem mun skila miklu í vetur.
Í byrjun leiks komst KFÍ yfir og hélt forystunni fyrstu fimm mínúturnar en þá náðu Stjörnukonur góðum spretti og komust yfir. Undir lok fjórðungsins sýndu KFÍ stelpur góða baráttu, Anna Soffía setti tvö víti niður og minnkaði muninn í 18-19 og strax í næstu sókn setti Linda Marín niður þriggja stiga körfu og KFÍ leiddi 21-19 þegar leikhlutinn var úti.
Í öðrum leikhluta var jafnfræði með liðunum en undir lok hans náðu Stjörnukonur forystu og í hálfleik var staðan 36-43 þeim í vil.
Í þriðja leikhluta virtist sem gestirnir ætluð að setja í fluggír því jafnt og þétt tókst þeim að auka forskotið sem endaði í 19 stiga mun 40-59 þegar leikhlutinn var úti.
Í fjórða leikhluta mættu KFÍ stelpur mjög ákveðnar til leik, sýndu mikla baráttu og komust aftur inn í leikinn. Eva Margrét og Labrenthia sýndu styrk sinn í þessum leikhluta og skoruðu grimmt en einnig lögðu aðrir leikmenn mikla baráttu í varnarleikinn sem skilaði góðum köflum. Því miður dugði það ekki til og því var 10 stiga tap staðreynd þegar leiknum lauk 69-79 Stjörnunni í vil.
Labrenthia Murdock Pearson var stigahæst í liði KFÍ með 32 stig, Evar Margrét var með 24 stig og 7 fráköst en aðrir leikmenn minna.
Hjá gestunum var Bryndís Hanna Hreinsdóttir stigahæst með 21 stig og Margrét Albertsdóttir 18.
Það var margt mjög jákvætt í leik KFÍ stelpna sem sýndu mikla baráttu og vinnusemi allan leikinn. Ef þær byggja ofan á þetta má búast ágætum árangri í vetur hjá þessu unga og efnilega liði.
Ítarlega tölfræði leiksins má nálgast á vef KKÍ.