Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar hefur tilnefnt þau Birgi Björn Pétursson og Lindu Marín Kristjánsdóttur sem íþróttamenn Ísafjarðarbæjar. Birgir Björn er tilnefndur í flokknum Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar en Linda Marín í flokknum Efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar.
Birgir Björn Pétursson er máttarstólpi í liði KFÍ. Hann hefur þroskast mikið sem leikmaður á undanförnum árum og náði svo einu af markmiði sínu þegar hann var valinn í A landsliðs úrtak Íslands og rétt missti af sæti í einu af sterkasta landsliði sem Ísland hefur átt í körfuknattleik. Landsliði sem nú mun fara í fyrsta sinn í lokakeppni í Evrópumóti. Hann stefnir á að komast í A landsliðshópinn og æfir af miklum metnaði með það að markmiði. Birgir er góð fyrirmynd innan sem utan vallar sem sýnir að með þrautseigju og elju geti menn náð markmiðum sínum.
Linda Marín Kristjánsdóttir er í hópi bestu körfuknattleiksleikskvenna landsins í sínum aldursflokki. Hún var í æfingahópi U-15 landsliðs KKÍ fyrir árið 2014 og var nýverið valin í æfingahóp U-16 liðsins fyrir árið 2015. Auk þess spilar hún stórt hlutverk í liði meistaraflokks kvenna KFÍ í 1. deildinni á yfirstandandi keppnistímabili, þrátt fyrir ungan aldur. Linda Marín er eljusöm keppnismanneskja sem leggur hart að sér við æfingar og keppni. Hún tekur stöðugum framförum og hefur bætt sig mikið sem leikmaður og liðsfélagi undanfarið ár.
Deila