Á milli jóla og nýárs birtist skemmtilegt viðtal á Karfan.is við miðherjann sterka Birgi Björn Pétursson, sem lék með KFÍ á síðasta tímabil. Eins og fram kemur þar lagði Birgir Björn land undir fót síðastliðið sumar og æfði í körfuboltaakademínu í Barcelona um sex vikna skeið. Í kjölfarið samdi hann svo við þýska liðið UBC Münster og lék með liðinu í haust en sá samningur rann út fyrir jól. Birgir hyggur þó á frekari landvinninga en hefur komist að samkomulagi við KFÍ um að leika með félaginu þar til annað kemur í ljós.
Birgir Björn verður því í leikmannahópi KFÍ sem mætir Ármanni á föstudaginn kemur, 8. janúar kl. 19:15, í fyrsta heimaleik liðsins á árinu.
Á síðasta tímabili var Birgir Björn meðal allra bestu leikmanna 1. deildarinnar með 17,7 stig, 12,5 fráköst og 22,3 framlagspunkta. Það er því mikill fengur að því að fá Birgi aftur til liðs við KFÍ og mun hann styrkja liðið mikið.
Deila