Nú eru einungis fjórar vikur þar til fjörið hefst í Körfuboltabúðum KFÍ 2014 en búðirnar verða settar kl. 18 þriðjudaginn 3. júní. Skráningar hafa gengið vel en nú er mikilvægt að allir þeir sem enn eiga eftir að skrá sig drífi í því. Stjörnulið þjálfara er væntanlegt vestur undir forystu yfirþjálfarans Finns Freys, sem er nýkrýndur Íslandsmeistari KR. Helena Sverris er búin að boða komu sína og Borce okkar verður á sínum stað svo fáir séu nefndir. Búðirnar standa fram á sunnudagseftirmiðdag 8. júní sem hittir á hvítasunnudag að þessu sinni. Tekið er við skráningum og fyrirspurnum á kfibudir@gmail.com en einnig er hægt að skrá sig hér á síðunni undir "Körfuboltabúðir 2014". Tekið skal fram að heimavistin er ætluð þeim sem lengst að koma og því er gisting ekki í boði fyrir KFÍ krakkana okkar frá Ísafirði og Bolungarvík.
Deila